139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Til að skýra aðeins nánar það sem ég er að hugsa í þessu sambandi þegar ég vísaði til þess að hugsanlega hefði mátt bregðast við hinum sértæka vanda sem við erum sammála um að hafi komið upp, núningi eða ágreiningi eða hvað við köllum það á sviði lyfjainnkaupa, þá hefði mátt bregðast við með öðrum hætti. Ég velti því upp í umræðunni.

Ég vil eiginlega flytja umræðuna aðeins aftar í ferlið, ef við getum orðað það sem svo, og velta því upp hvort aðrar leiðir en nákvæmlega breyting á lögum um opinber innkaup hefðu komið til greina. Ég þekki ekki forsöguna í þeim efnum. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson drap aðeins á það áðan enda fyrrverandi heilbrigðisráðherra og kynntist þessum málum þegar hann sat uppi í ráðuneyti. Ég játa að skoðun mín er enn sú að það sé ansi mikið í lagt, ef við getum orðað það sem svo, að gera almenna breytingu á lögum um opinber innkaup sem getur verið töluvert mikil og róttæk breyting með almennt gildi, þegar viðfangsefnið eða vandamálið sem við er að stríða er hugsanlega takmarkað og á mjög þröngu sviði.