139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

686. mál
[19:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Verið var að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálaflokka eða stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Þetta eru breytingar á lögum nr. 162/2006, með síðari breytingum, og þær breytingar voru gerðar í september 2010 eins og kom fram í máli 1. flutningsmanns sem talaði á undan mér.

Mér finnst mikilvægt að við reynum að læra af hruninu og svo heppilega vill til að við eigum afskaplega góða skýrslu, í níu bindum, sem rannsóknarnefnd Alþingis útbjó fyrir okkur; skýrslu sem hefur í raun matað ofan í okkar helstu niðurstöður og lærdóma af hruninu í góðri greiningu og niðurstöðuköflum. Ég held að það sé í 8. bindi skýrslunnar sem fjallað er um samruna viðskiptalífs og stjórnmála og hve nauðsynlegt sé að reyna að skera á milli þessara afla en mér finnst Alþingi Íslendinga tregt í taumi að átta sig á því að gera þarf bragarbót á. Það þarf að ganga miklu lengra en gert hefur verið þó með þeim lagabreytingum sem eru jákvætt skref í rétta átt en það er alls ekki gengið nógu langt.

Það var gaman að hlusta á hv. þm. Þór Saari rifja upp umræðurnar sem áttu sér stað á síðasta ári um það frumvarp þar sem allir sem tjáðu sig viðurkenndu í raun að um væri að ræða ágætt skref og í rétta átt en ekki væri stigið nógu langt. Ég spyr: Hvenær á að klára þessa vegferð? Hvenær á að klára þennan göngutúr? Eða átti kannski bara alltaf að stíga eitt skref? Átti aldrei að fara í þetta stökk? Fyrirtæki hafa ekki skoðanir, þau hafa bara hagsmuni og því finnst mér óásættanlegt að þau styrki stjórnmálaflokka eða stjórnmálahreyfingar.

Mig langar aðeins að ræða þrennt. Eitt af því höfum við lært nú á síðustu missirum vegna þess að við höfum haldið tvær þjóðaratkvæðagreiðslur. Í þeirri fyrri, sem var um Icesave-samningana, fór lítil kosningabarátta af stað. Hún var töluð niður af yfirvöldum og við urðum ekki vör við að neinn væri að borga með öðrum málstaðnum. Í þeirri seinni, sem var fyrr á þessu ári, spruttu upp bæði já- og nei-hreyfingar. Þær teljast ekki sem stjórnmálahreyfingar og standa utan við alla lögsögu um fjármál slíkra stofnana. Þarna sáum við þær tilhneigingar sem höfðu verið fyrir hrun. Í fyrsta lagi var ekki opinbert hverjir hefðu styrkt þessar hreyfingar. Svo kom í ljós að einhverjir blaðamenn gátu grafið það upp að Samtök atvinnulífsins og mörg hagsmunasamtök hefðu styrkt aðra hreyfinguna um milljón, ef ég man rétt, ég þyrfti að fletta því upp. Það eru miklu hærri fjárhæðir en leyfilegt er að styrkja stjórnmálasamtök um þannig að mér finnst það mjög alvarlegt. Ég heyrði reyndar frá talsmanni annars hópsins að þeir hefðu hreinlega getað fengið ótakmarkað fjármagn en voru farnir að neita fé af því að þeir sáu ekki fram á að geta eytt því.

Ég held líka að við ættum að setja strangar reglur um auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðlum og draga þannig úr fjárþörf þeirra. Það er mjög óeðlilegt að hægt sé að kaupa sér aðgang að fólki og skoðunum fólks með auglýsingum og þar að auki fletja auglýsingar umræðuna út. Auglýsingar drepa umræðuna, þær smækka hugtökin, umræðan fer niður í einhver slagorð. Það sem við munum úr stjórnmálaumræðunni fyrir síðustu alþingiskosningar 2009 er t.d. slagorðið „skjaldborg um heimilin“. Ég efast um að margir muni nákvæmlega hvernig sá flokkur sem kom með það slagorð ætlaði sér að útfæra það. Alla vega höfum við ekki séð þær efndir enn þá. Auglýsingarnar búa til falsmynd af einhverjum heimi sem á að taka við og sú falsmynd er búin til á auglýsingastofum, hún hefur ekkert með veruleikann að gera.

Það vill svo til að ég hef starfað sem þingmaður í tvö ár og allan þann tíma fyrir algerlega fjárvana stjórnmálaafl. Borgarahreyfingin bauð fram af miklum vanefnum, átti enga peninga, og fékk enga peninga fyrr en eftir að ég hafði yfirgefið hana. Þá stofnaði ég aðra stjórnmálahreyfingu, Hreyfinguna, sem hefur aldrei verið á fjárlögum. Þetta hefur allt gengið alveg ljómandi vel þannig að ég sé ekki hvar þessi brjálæðislega þörf fyrir fjármagn er. Ég held að um sé að ræða gerviþörf. Ég held í fyrsta lagi að stjórnmálaflokkarnir komist af með miklu minna fé ef við bara komum okkur upp heilbrigðum reglum og lögbindum þær svo að þær verði örugglega ekki sviknar. Ég held að það væri hollt fyrir okkur að fara í kosningabaráttu á umræðugrundvelli en ekki auglýsingagrundvelli.