139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að ræða þetta samspil milli velferðarkerfis og atvinnulífs og mikilvægi blómlegs atvinnulífs fyrir velferðarkerfið. Þá bendi ég líka á að í alþjóðlegum rannsóknum hefur það sýnt sig að samkeppnishæfi norrænu hagkerfanna er gríðarlega mikil einmitt út af því að þar er líka öflugt velferðarríki. Það er mjög mikilvægt samspil þarna á milli þar sem atvinnulífið hjálpar velferðarkerfinu og velferðarkerfið hjálpar atvinnulífinu.

Varðandi breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu tel ég að breytingar sem miða að því að tryggja að ekki skapist eignarhald á aflaheimildum — sem tryggir að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum — og að nýliðun í greininni sé tryggð séu síst til þess fallnar að skaða atvinnugreinina, heldur þvert á móti til að efla sjávarútveg og auka arðsemi þjóðarinnar, þ.e. ríkissjóðs, af auðlindum þjóðarinnar. Mér finnst mjög merkilegt að þingmaðurinn haldi því fram að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að fara út í breytingar sem munu skaða greinina. Þvert á móti (Gripið fram í.) er það mjög skýr skoðun Samfylkingar og Vinstri grænna að það eigi (Gripið fram í: … ekki sama og skoðun.) — að það sé mikilvægt að þær breytingar sem gerðar eru á fiskveiðistjórnarkerfi tryggi hagsmuni þjóðarinnar sem á auðlindirnar og það er best gert með því að hagsmunir greinarinnar séu tryggðir þannig að hún skapi sem mest verðmæti.