139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir þann málflutning sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hóf hér áðan um samkeppnishæfi landsins. Hvað höfum við horfst í augu við á undangengnum tveimur og hálfu ári, allt frá hruni? Það er að samkeppnishæfi Íslands hefur veikst dag frá degi. Þegar samkeppnishæfin veikist missum við fyrirtæki úr landi og við missum fólk sömuleiðis. Það er sú þróun sem við höfum þurft að horfast í augu við.

Hvernig stendur á því? Jú, í fyrsta lagi vegna þess að ríkisstjórnin hefur rekið skattstefnu sem einfaldlega hefur vægast sagt ekki gengið upp, skattstefnu sem hefur haft það að markmiði að skattpína fólk og fyrirtæki með þeim afleiðingum sem blasa við okkur.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórninni gjörsamlega mistekist að endurskipuleggja skuldug heimili og atvinnulíf. Við vöruðum við því áður en farið var í hina svokölluðu greiðsluaðlögun að þar væri um allt of flókið og tímafrekt ferli að ræða. Hver er staðreyndin í dag? 80 manns sem vinna hjá umboðsmanni skuldara, og vinna gott verk, ná því að afgreiða 200 fjölskyldur í mánuði hverjum í gegnum þessa svokölluðu greiðsluaðlögun. 2000 fjölskyldur bíða eftir því að komast að hjá umboðsmanni skuldara og 200–300 bætast við í hverjum mánuði þannig að vandinn vex frekar en hitt. Hin svokallaða Beina braut sem ríkisstjórnin lofaði atvinnulífinu er núna orðin hlykkjótt og holótt. Skuldugu íslensku atvinnulífi er einfaldlega ekki sinnt. Þess vegna er hárrétt hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að lýsa yfir áhyggjum af stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum mikilvægu málum sem blasa við okkar. Ég hef óskað eftir fundi í efnahags- og skattanefnd Alþingis til að fá Arion banka á fund nefndarinnar (Forseti hringir.) til að fara yfir horfur í efnahagsmálum því að þær horfur sem Arion banki dregur upp í þeim efnum eru allt aðrar en ríkisstjórnin er að gera og Seðlabanki Íslands og við þingmenn (Forseti hringir.) verðum að standa vaktina.