139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega ánægjulegt að sjá hvern framsóknarmanninn á fætur öðrum koma í ræðustól Alþingis og ræða um samkeppnismál. Batnandi mönnum er best að lifa, við ættum kannski að ræða landbúnaðarstöðuna í leiðinni. [Kliður í þingsal.] En það gleymist oft í þessum sal að á undanförnum árum hefur átt sér stað umtalsvert efnahagshrun, (Gripið fram í: Nú?) kannski það stærsta í hinum vestræna heimi, og menn eru nú uppteknir af því að hreinsa til.

Við höfum náð ótrúlegum árangri í viðspyrnunni, hvort sem litið er til ríkisfjármálanna eða að við búum við hagvöxt á þessu ári. Af hverju er samkeppnishæfin á leiðinni niður, úr 30. í 31. sæti? (REÁ: Af því að það er viðspyrna.) Vegna þess að hér var hagvöxtur neikvæður, hér skortir erlenda fjárfestingu og hér eru gjaldeyrishöft. Það gleymist oft en það er best að taka það fram hér að besta leiðin til að afnema gjaldeyrishöft er að breyta skipan gjaldeyrismála og við ættum kannski að ræða það við framsóknarmenn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Auka þarf erlenda fjárfestingu og það er í raun og veru kostulegt að þeir þingmenn sem ekki vildu ganga frá Icesave-málinu með samningum skuli koma hingað og kvarta undan skorti á erlendri fjárfestingu. [Kliður í þingsal.] Það er líka alveg ótrúlegt að hingað komi menn og kvarti undan haftastefnunni en vilja ekki leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji breyta skipan gjaldmiðilsmála sinna til lengri tíma litið. (Gripið fram í: Ha?)

Reynsla annarra þjóða sýnir nefnilega að erlend fjárfesting og hagvöxtur eykst ef þjóðir ganga í Evrópusambandið. [Kliður í þingsal.] Það er sú leið sem við ættum að feta í sameiningu, allir unnendur samkeppnismála í þessum sal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hafi menn í raun og veru áhyggjur af samkeppnishæfni Íslands eiga menn að leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið og taka upp nýja mynt. Þannig getur hún afnumið gjaldeyrishöft og fengið hagvöxt upp á nýjan leik hafi menn í raun og veru áhuga á því. Ef menn eru fyrst og fremst í pólitískum skylmingum að tala um samkeppnismál og hafa áhyggjur af samkeppnismálum [Kliður í þingsal.] segi ég: Framsóknarflokkurinn á að líta sér nær. Hér eigum við að leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun en ekki standa í vegi fyrir því að hún geti búið við hagvöxt til lengri tíma litið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (RR): Forseti biðu hv. þingmenn að gefa ræðumönnum frið í þær tvær mínútur sem þeir hafa til að tala.)