139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[14:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er með góðan tilgang, miðar að því að lækka verð á innkaupum fyrir hið opinbera. Rótin að því er vinna sem var unnin í heilbrigðisráðuneytinu á sínum tíma, í núverandi velferðarráðuneyti og stofnunum á þess vegum. Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að fara vel yfir mál eins og þetta því að jafnvel þó að ásetningurinn sé góður geta leynst hættur. Ég tel að hv. viðskiptanefnd hafi gert það alveg prýðilega. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar farið fram á það að á milli umræðna förum við enn betur yfir ákveðna þætti því að mistök í þessu geta reynst dýrkeypt. Hefur formaður nefndarinnar, hv. þm. Magnús Orri Schram, tekið vel í þá málaleitan. Við áskiljum okkur þess vegna rétt til að bíða með að taka efnislega afstöðu til málsins þangað til við lokaafgreiðsluna en ég tel að við munum flest sitja hjá við þessa (Forseti hringir.) atkvæðagreiðslu.