139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:01]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og það að vekja máls á þessu stolti okkar. Ég þarf eiginlega aðeins að byrja á að fara yfir þær forsendur sem hann leggur upp með í spurningum sínum af því að sú hugsun kemur svolítið fram hjá honum, bæði í orðalaginu og í spurningunum sjálfum, að þjóðgarðurinn sé undir beinni stjórn ráðherra og að sú sem hér stendur hafi með daglegan rekstur garðsins og ákvarðanir í stórum og smáum málum að gera. Þannig er það ekki. Ég sé mig eiginlega knúna til að fara stuttlega yfir stjórnunarfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs sem fer eftir sérstökum lögum. Hann er sérstök ríkisstofnun, yfir honum er sjö manna stjórn og þar á meðal eru formenn fjögurra svæðisráða fyrir hvert rekstrarsvæði fyrir sig. Með þessu fyrirkomulagi er reynt að tryggja aðkomu heimamanna og þeirra aðila sem ríkastra hagsmuna eiga að gæta við stjórn þjóðgarðsins á hverjum tíma.

Verndaráætlunin sem ég staðfesti fyrr á þessu ári er unnin af stjórn þjóðgarðsins samkvæmt lögum í þessu víðtæka samráðsferli og með virkri aðkomu svæðisráðanna. Ég staðfesti áætlunina efnislega óbreytta en gaf mér góðan tíma í að hlýða á rök þeirra sem höfðu athugasemdir og áhyggjur af einstökum þáttum, sem eru meðal annars þeir sem komu fram í máli hv. þingmanns. Vegna þess hversu margar athugasemdirnar voru um samgöngukerfið í garðinum fór ég þess á leit við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er það stjórnvald sem hefur með málið að gera, að stjórnin efndi til sérstaks samráðs í framhaldinu um samgöngur í garðinum. Ég fór ekki þá leið að breyta sjálf á mínu borði tilteknum atriðum, samgönguleiðum eða öðrum ákvæðum, einfaldlega vegna þess að það eru skýrar skorður við slíku inngripi í lögunum um Vatnajökulsþjóðgarð. Ég vildi líka sýna því stjórnarfyrirkomulagi sem var sett á við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs virðingu og sóma með því að breyta ekki einstökum atriðum í stjórnunar- og verndaráætluninni.

Ég vona að það liggi alveg fyrir bara út frá orðalaginu „mun ráðherra halda sig við“ o.s.frv. að ég hyggst ekki reyna að stýra daglegum rekstri og einstökum ákvörðunum Vatnajökulsþjóðgarðs frekar en annarra stofnana sem undir mig heyra.

Varðandi síðan efnislega einstaka þætti — ég vona að ég komist yfir málið hér en klára annars í seinni ræðu minni — dvelur þingmaðurinn kannski lengst við skotveiðarnar. Það er ágætt að við stoppum aðeins við þær til að byrja með. Það eru ákvæði í verndaráætlun um veiðitíma og takmörkun á veiðum á tilteknum svæðum, í kringum Snæfell og á Eyjabökkum, og þessar tillögur eru sérstakar vegna þess að þær eru sprottnar úr tillögum svæðisráðsins. Það er svæðisráðið sjálft sem leggur til við stjórn þjóðgarðsins að takmarka veiðarnar með þessum hætti. Þessar tillögur sérstaklega eru ættaðar frá heimamönnum.

Mér finnst líka rétt að geta þess, af því að menn hafa farið svolítið frjálslega með orð, ekkert sérstaklega hv. þingmaður heldur hefur það verið í umræðunni, að skotveiðar eru ekki alfarið bannaðar í þjóðgarðinum. Hefðbundnar skotveiðar eru eftir sem áður leyfðar í þjóðgarðinum og það svæði sem um er að ræða er 2,5% af stærð þjóðgarðsins fyrir utan jökul. Ég skil áhyggjurnar sem skotveiðimenn hafa. Rökin bak við bannið eru fyrst og fremst að stjórn þjóðgarðsins leggur upp með það að gönguferðir verði auknar nákvæmlega á þessu svæði og telur að það fari illa saman við skotveiðar. Þetta eru röksemdirnar sem ég fæ til mín í ráðuneytið.

Ég hef samt sem áður hvatt samtök skotveiðimanna til að fylgjast með þróun mála hvað þetta varðar og til þess að vera í virkri samræðu við svæðisráð og stjórn þjóðgarðsins. Þetta er nokkuð sem þarf að fylgjast með hvernig gefst eins og allir aðrir þættir.

Mig langar til að nefna eitt um samgönguþáttinn. Ég lagði upp með að óska eftir því að samráði yrði fram haldið í þeim efnum. Við búum á Íslandi við opinbert vegakerfi sem er skilgreint í vegalögum og í því eru 13 þús. kílómetrar, en annað eins af vegaslóðum hefur orðið til á Íslandi við umferð manna utan almenns samgöngukerfis. Það er mikilvægt að skýra náttúruverndarlög hvað þetta varðar og gera grein fyrir því að við verðum að snúa baki við því að þetta snúist um þennan (Forseti hringir.) ævintýrablæ yfir ferðum í óbyggðum og það sé alls staðar hægt að fara. Við verðum að koma (Forseti hringir.) einhverri reglu yfir samgöngukerfið. Ég vona, virðulegur forseti, að ég nái að ljúka þessari yfirferð í seinni ræðunni.