139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég veit ekki hvernig háttar til í þjóðgarði Skota sem greinilega er ekki nema einn. Almennt háttar þannig til um þjóðgarða að þeir eru settir á stofn fyrst og fremst í náttúruverndarskyni, í öðru lagi þannig að maðurinn geti haft gagn og gaman af því að fara um hann og njóta þeirrar náttúru sem þar er án þess að það skemmi náttúruna. Þá hafa menn ýmsar aðferðir til þess og ég tel, eins og ég sagði meðal annars á opnum umhverfisnefndarfundi um þetta sama mál, því að þetta er ekki rætt hér í fyrsta sinn, að í sjálfu sér eigi hagsmunir allra þeirra hópa sem sækjast eftir samneyti við náttúruna að vera jafnir. Skotveiðimenn skjóti, göngumenn gangi, skíðamenn hlaupi á skíðum. Þeir sem vilja synda í vötnum syndi í vötnum, veiðimenn veiði eins og þeir vilja. Þetta getur því miður hins vegar ekki allt farið saman. Það er ekki gott að margir göngumenn þvælist um á svæðum þar sem veiðimenn stunda sína iðju. Og það er ekki gott að ökumenn sem aka, segjum á veturna, þvælist mikið í slóðum skíðamanna sem fara á skíðum.

Þannig er það og þess vegna þarf umfram allt skipulag í þjóðgörðum og ég tel að í því skipulagi sem hér er komið á sé reynt að taka einhvers konar tillit til þessa. Við þurfum kannski að vita meira um það hvað hefur komið út úr þessu samráði um samgöngur sem heitið var einmitt á þessum opna umhverfisnefndarfundi. Svo þurfum við líka að huga að því að þegar við samþykkjum lög um þjóðgarða og önnur slík hlot sem gera ráð fyrir miklum áhrifum heimamanna (Forseti hringir.) þýðir ekki að koma eftir á og skammast við ráðherrann einan.