139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:13]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt í allri umræðu og framgöngu um mál eins og hér er rætt um að menn nýti reynslu og verkvit þeirra sem hafa stundað tengsl við þau svæði sem um er fjallað. Það er ekki gert hér, það er í fyrsta lagi fáránlegt að miða framgang málsins við það að allt sé sett í excel-skjal, eins og hæstv. ráðherra er tamt, en ganga ekki til verka í takt við það sem er að gerast úti í náttúrunni. Það er líka háðung að ráðherra skuli ekki tryggja að stjórn, yfirstjórn og svæðisstjórn yfir Vatnajökulsþjóðgarði sé staðsett á Hornafirði. Um það svæði, suðursvæðið, fer allur þorri ferðamanna, hvort sem þeir eru gangandi, akandi eða í öðrum tilgangi, svo sem í skotveiðum sem hefð er fyrir. Það er eins og að menn geri sér til að mynda ekki grein fyrir því, bara vilji ekki vita það, að það rekst ekkert á í þessum efnum því að þar ræður veðurfar, tíð, staðsetning, tímabil veiðisvæða o.s.frv. Þetta er ekkert á skjön. Það er bara eitthvað sett upp frá skrifborði í Reykjavík, að þetta gæti bara verið svona og einhvern veginn — en það er ekki þannig. Það verður að fjalla miklu opnar um þetta. Það á að treysta þessu fólki. Það fer ekkert fólk út á þessi svæði sem ber ekki fulla virðingu fyrir náttúrunni, hvort sem það eru 4x4, vélsleðamenn, göngumenn eða aðrir. Það er fólk sem er í tengslum við náttúruna, kann á hana (Forseti hringir.) og tekur tillit til hennar. Það á að ráða ferð í þessu en ekki einhverjar tilskipanir utan úr (Forseti hringir.) bæ.