139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:20]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er kannski ekki gott að ræða svo stórt mál á svona skömmum tíma. Ég vil minna hv. þingmenn á að lögin um Vatnajökulsþjóðgarð eru skýr og þar er einmitt kveðið á um að nýta reynslu og verksvit heimamanna. Það var kannski rætt mest í umræðunni um þau lög þegar þau voru sett hér á Alþingi árið 2007. Ef mig misminnir ekki fóru þau lög samhljóða í gegnum þingið. Ég ætla ekki að fullyrða það, en mig minnir það. Það voru svæðisráðin sem voru lykilatriði í stjórnkerfi þjóðgarðsins, fjögur svæðisráð. Verndaráætlanirnar eru hannaðar af svæðisráðunum þar sem heimamenn líta yfir sitt svæði og gæta þeirra hagsmuna sem þeir telja brýnasta. Þannig var þetta hugsað og þannig hefur þetta verið tíðkað. Þess vegna er verndaráætlunin á ábyrgð stjórnar og svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég vil líka nota þetta tækifæri og benda á, eins og hefur áður komið fram í umræðunni, að auðvitað eru þjóðgarðar náttúruverndartæki fyrir okkur sem nú göngum á jörðinni og fyrir komandi kynslóðir þannig að þær fái að njóta ósnortins víðernis eins og við hin, sama hvort það er til gönguferða eða veiða eða annars. Þess vegna erum við að setja á stofn þjóðgarð. En hugmyndin um þjóðgarð er líka atvinnustefna. Ferðaþjónusta á Íslandi, einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs, gjaldeyrisaflandi atvinnuvegur, er auðvitað ekkert annað en aðalatriði þessa þjóðgarðs. Þjóðgarður er nefnilega ekki bara verndun í skilningnum friðsæll dauðdagi heldur nýting í skilningnum öflug ferðaþjónusta út um allt land með tekjur (Forseti hringir.) fyrir heimasvæði.