139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru meirihlutanefndarmenn í félags- og tryggingamálanefnd, þ.e. ásamt þeirri sem hér stendur þær Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Svo ég lesi bara það sem um ræðir þá segir í efnisgrein frumvarpsins:

„Við 15. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að breyta þessum fjárhæðum til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar skal ráðherra breyta þeim með reglugerð.“

Lög þessi skulu öðlast þegar gildi.

Frumvarpið er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga aðila á almennum vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Í aðdraganda kjarasamninganna áttu stjórnvöld og aðilar á almennum vinnumarkaði víðtækt samráð um ýmsa þætti sem lúta að efnahags- og kjaramálum. Með efni yfirlýsingarinnar lögðu stjórnvöld sitt af mörkum til að kjarasamningar yrðu gerðir til þriggja ára á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur hafa stjórnvöld haft samráð við aðila á opinberum vinnumarkaði vegna efnis yfirlýsingarinnar.

Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram vilji stjórnvalda til að endurskoða bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og um hefur verið samið í kjarasamningum. Heimilt er að hækka atvinnuleysisbætur með reglugerð, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Hið sama gildir um fjárhæðir almannatrygginga, sbr. 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, en engu síður var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þar sem fram kemur að bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. laganna, breytist ekki á árinu 2011 í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2011. Því er lagt til í frumvarpi þessu að heimilt verði að hækka bætur almannatrygginga ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Meðal annars er vísað til nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá 5. maí síðastliðnum, eins og ég sagði hér áður, sem og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þeirra.

Ástæða þess að þetta er lagt fram er náttúrlega sú að tryggja að hækkaðar bætur geti verið greiddar út núna um næstu mánaðamót. Kynning mun fara fram á þeim leiðum sem í hyggju er að fara og verður lögð fram í félags- og tryggingamálanefnd á morgun og þá verður það tekið sérstaklega fyrir. Von mín og okkar allra er að málið vinnist hratt því við verðum að tryggja að þetta geti orðið um næstu mánaðamót, þess vegna er þetta lagt fram sem þingmannamál. Nefndin öll mun taka það fyrir á morgun og þá er að sjá hvort fleiri bætist við.