139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[15:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð þetta mál og hef fullan skilning á því að það þurfi að fara hratt í gegn. Ég styð auðvitað heils hugar að bótaþegar í landinu fái umsamdar kjarahækkanir í tæka tíð þannig að ekki er að vænta mikillar fyrirstöðu af minni hálfu við frumvarpið.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í ástæður þessa frumvarps. Eins og hún rakti í máli sínu og er rakið í athugasemdum með frumvarpinu var tekið fyrir það, með bráðabirgðaákvæði í lögum, að bætur yrðu hækkaðar í landinu árið 2011. Bætur eiga alla jafna að hækka samkvæmt verðlagsvísitölu. Auk þess á ráðherra, ef ég man rétt, að vera heimilt að hækka bætur með reglugerð. En tekið var fyrir þetta með bráðabirgðaákvæði og þess vegna þurfum við núna að samþykkja lagafrumvarp sem heimilar hækkanir.

Mig langar að spyrja um eitt, í ljósi þessarar forsögu og í ljósi þess að við stöndum núna hér og erum að fara í dálítið furðulega lagasetningu um að hækka megi bætur, nýbúin að setja bráðabirgðaákvæði sem ég m.a. mótmælti, um að ekki ætti að hækka bætur. Var ekki bara vitlaust að setja bráðabirgðaákvæðið í lögin? Ég vil spyrja hv. þingmann að því.