139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að heyra að þetta liggi ekki enn fyrir, svo löngu eftir að kjarasamningar voru samþykktir, að stjórnsýslan skuli ekki vinna hraðar en þetta. Ég held að menn þurfi að temja sér önnur vinnubrögð. Það eru að koma mánaðamót og setja þarf inn í kerfin hjá Tryggingastofnun hvað eigi að greiða og eftir hvaða reglum. Þá verða menn að setja sér reglur og hefðu átt að gera það í einum rykk þegar kjarasamningar lágu fyrir, að koma þeim í gagnið og ákveða hvaða leið yrði farin, láta reikna út hvað það kostaði og koma svo með þær tölur inn á hið háa Alþingi. Þá geta menn metið hvort efnahagur ríkissjóðs þoli það og ef hann þolir það koma menn að sjálfsögðu fram með fjáraukalög eins og ég hef lagt til og þá eru þetta orðin lögformleg útgjöld ríkissjóðs.

Ég skora því á hv. þingmann, formann félags- og tryggingamálanefndar, að hotta á ráðuneytið og koma því til skila frá mér að það verði hreinlega að liggja fyrir á fundinum í fyrramálið hvaða leið á að fara. Þeir þurfa fyrr eða seinna að ákveða það því að mánaðamótin eru skammt undan og tölvurnar bíða, millifærslukerfið og allt það. Þeir þurfa að koma með þessa leið og ég vil sem skattgreiðandi og fyrir hönd barnanna minna og annarra barna á Íslandi vita hvað hún kostar ríkissjóð svo hægt sé að setja það í fjáraukalög. Þá vita menn hvað ríkissjóður skuldar í kjölfarið. Þetta er mjög mikilvægt og ég skora á hv. þingmann að hafa samband við ráðuneytið og hvetja til þess að þeir komi með þessar tölur.