139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kvartaði undan því að það vantaði upplýsingar um stöðu einstæðra mæðra og kannski feðra líka. Það vantar yfirleitt upplýsingar um stöðu heimilanna á Íslandi en það vill svo til að það liggja fyrir tvær tillögur um að kanna stöðu heimilanna, önnur frá mér og hin frá ráðuneytinu. Þær liggja inni í efnahags- og skattanefnd óunnar þannig að það er nú allur áhuginn á að fá upplýsingar um stöðu heimilanna. En þessar upplýsingar liggja út um allt, á kennitölum úti um allan bæ. Það er hægt að safna þeim saman á þrem vikum, hugsa ég.

Varðandi skólana og áhrif þeirra á jafnrétti. Það er rétt að einstæðir foreldrar eiga oft í erfiðleikum með alls konar hluti varðandi leikskóla og grunnskóla. Til dæmi eru fyrirbæri sem heitir starfsdagar og foreldradagar, þá er einfaldlega lokað. Þjónustulund þessara stofnana gagnvart kúnnum sínum sem eru foreldrarnir, þeir eru kúnnarnir, er fjandsamleg. Þeir eru bara á móti sínum kúnnum. Þeir loka bara. Hvernig dytti mönnum í hug í banka, ferðafélagi, flugfélagi eða einhverju svoleiðis að hafa lokað af því að það sé starfsdagur eða þeir ætli að loka af því að þeir ætli að rabba við kúnnana? Þetta á náttúrlega að setja inn í skipulagið hjá þessum stofnunum þannig að starfsmenn geti haldið áfram og fólk þurfi ekki að hlaupa út um allan bæ til að redda pössun fyrir börnin þá daga sem er lokað. Svo vill oft þannig til — ég var með tvö börn, annað á leikskóla og hitt í grunnskóla og leikskólinn lokaði þennan daginn og svo kom að grunnskólanum, svo kom leikskólinn aftur og svo grunnskólinn. Þetta var allt sitt á hvað. Maður var hlaupandi út um allt og afar og ömmur eru að vinna þannig að þetta er ekki lengur eins gott og það var í gamla daga. Ég held að menn þurfi að laga þetta og bæta skipulag skólanna.