139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:24]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Ég er svo lánsöm að hafa fengið að fjalla talsvert um þessa áætlun með félags- og tryggingamálanefnd og álit okkar liggur hér fyrir í prentuðu máli í mjög vönduðu nefndaráliti. En ég verð að viðurkenna að í allri þessari vinnu hefur maður aftur og aftur hugsað hversu ófullkomið samfélag okkar er í raun og veru. Við viljum svo gjarnan að samfélag okkar sé samskipa þar sem allir hópar samfélagsins sitji og standi jafnréttháir hlið við hlið, hvort sem það eru konur eða karlar, börn, útlendingar eða fatlað fólk. Í þannig samfélagi mundum við ekki þurfa sérstaka áætlun í jafnréttismálum því að það væri svo sjálfgefið og sjálfsagt að allir hefðu sama rétt, en við erum víst ekki komin þangað enn þá. Hér höfum við mjög ítarlega þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum sem nefndin hefur eins og ég sagði áðan fjallað talsvert mikið um og breytt talsvert og bætt, finnst mér, í meðförum sínum.

Í þessu nefndaráliti kemur ýmislegt fram og ég ætla bara að tæpa á örfáum atriðum. Þar kemur fram að í raun og veru er þessi tillaga áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og í henni kemur fram stefna og ákveðin verkefni. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var mörkuð sú stefna að styrkja ætti stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu. Samkvæmt yfirlýsingunni hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf, að kynjasjónarmið verði höfð að leiðarljósi í aðgerðum til atvinnusköpunar svo gagnist bæði konum og körlum með fjölbreyttan bakgrunn, og síðan náttúrlega þetta hræðilega mál sem við náum ekki tökum á sem er kynbundinn launamunur. Það er sem sé stefna stjórnvalda að útrýma honum í samvinnu við hagsmunasamtök og aðila vinnumarkaðarins. Hér er einnig tiltekið og það kemur einnig fram í stefnumarkandi áætlun ríkisstjórnarinnar Ísland 20/20 að við viljum svo gjarnan að Ísland verði öflugt samfélag sem stendur vörð um velferð á sjálfbæran hátt í þágu allra samfélagshópa og að það verði tekið tillit til kynjasjónarmiða alls staðar.

Okkur hefur þótt það mjög merkilegt, eins og fram kom í máli hv. varaformanns nefndarinnar, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að í þessari áætlun er aftur og aftur verið að ítreka það að fara eigi að lögum. Þetta er náttúrlega nánast óásættanlegt að við þurfum aftur og aftur að minna opinberar stofnanir á að það séu jafnréttislög í landinu og þeim beri að fara eftir þeim. Og það verður að segjast að það er dálítið niðurdrepandi að gera sér grein fyrir því að þetta sé ekki sjálfgefið og sjálfsagt að jafnréttislög séu alltaf höfð í huga. Það er virkilegt umhugsunarefni að við þurfum aftur og aftur að fara af stað í sérstök átaksverkefni til þess í raun að minna stofnanir á að það séu jafnréttislög í gildi í landinu.

Talsvert er rætt um það í nefndaráliti okkar, og ég held að skipti mjög miklu máli, að þegar við setjum svona verkefni, svona átaksverkefni af stað séu markmið þeirra skýr og mælanleg þannig að hægt sé að fylgjast með framganginum og endurskoða þau. Í raun og veru þarf að fylgja hverju verkefni ítarleg verkefnalýsing þar sem fram kemur markmiðssetning, tímasetning og ábyrgðaraðilar. Nefndin leggur mikla áherslu á að ráðherranefnd um jafnrétti kynjanna setji sér skýrar reglur um slíka verkefnislýsingu þannig að þetta séu ekki bara fögur orð á blaði heldur skýrar áætlanir, tímasettar og markmiðssettar þannig að hægt sé að fylgja þeim vel eftir.

Eitt af þeim atriðum sem við fjölluðum sérstaklega um var kyngreining upplýsinga. Það er mjög merkilegt að gera sér grein fyrir því að það skortir mjög að upplýsingar sem fyrir liggja um ýmis mál séu kyngreindar. Það er nú svo að skortur á upplýsingum leiðir oft til lakari ákvarðana og ómarkvissari verkefna- og áætlanagerðar og það er skýr lagaskylda að kyngreina gögn í opinberri hagsýslugerð. Þessu verðum við að muna eftir og minna stöðugt á, það á að kyngreina gögn.

Nefndin áréttar í nefndaráliti sínu mikilvægi þess að hið opinbera sinni lögbundinni skyldu sinni og leggur til að þeir sem ekki sinna þessu lögbundna hlutverki verði áminntir ef þeir gera það ekki. En til þess að geta í raun og veru komist áfram, stigið skref upp á við eða fram á við í jafnréttismálum, verðum við að vera með góðar upplýsingar. Það er algjörlega kristaltært.

Síðan langar mig til að fara nokkrum orðum um launamisrétti kynjanna. Við höfum talað dálítið um kynbundinn launamun, það hljómar kannski heldur skár en launamisrétti kynjanna. Nefndin komst að því að við ættum bara að kalla hlutina réttu nafni og þess vegna tölum við um launamisrétti kynjanna. Þetta er í raun og veru misrétti og þar með mannréttindamál. Það að kona og karl sem vinna sama starf fái ekki sömu laun fyrir það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt. Einhvern veginn hefur okkur ekki tekist nógu vel að komast áfram, stíga skref áfram í þessu máli. Auðvitað má segja að umræða og meðvitund um mál sé út af fyrir sig alltaf ákveðið skref en við verðum að horfast í augu við það að við eigum hér mikið og stórt verk að vinna og við verðum að vinna mjög ákveðna aðgerðaáætlun í því sambandi.

Við töluðum talsvert um að fyrirtæki gætu fengið svokallaða jafnréttisvottun og það ætti að geta verið eftirsóknarvert takmark fyrir fyrirtæki og stofnanir og hluti af ímynd þeirra, þau gætu jafnvel nýtt slíka vottun í auglýsingum og kynningarefni sínu. Við höldum að þetta geti verið eitthvað sem eigi að leggja mjög mikla áherslu á. Það að fyrirtæki geti sagt að það hafi fengið jafnréttisvottun ætti að gera það eftirsóknarvert að starfa hjá slíku fyrirtæki.

Síðan langar mig til að ítreka hér að talað er um að gera þurfi sérstaka úttekt á launamisrétti á landsbyggðinni. Það er nefnilega þannig, þó að erfitt sé að finna skýringar á því, að kynbundið launamisrétti er meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að störfin eru fábreyttari en alla vega þurfum við að finna út hvers vegna svo er og reyna að vinna aðgerðaráætlun til að breyta því.

Síðan er þetta með starfsstéttirnar. Nefndinni voru kynnt þau sjónarmið að mikilvægt væri að gera sérstaka úttekt á launamisrétti kynja í þeim starfsstéttum þar sem annað kynið er ráðandi. Eitt af einkennum íslensks vinnumarkaðar er að hann er mjög kynskiptur og það er talið jafnvel afgerandi forsenda fyrir launamisrétti kynjanna. Þetta verður að skoða sérstaklega. Hluti af þessu er auðvitað sú staðreynd að ákveðin störf hafa verið kölluð hefðbundin kvennastörf. Þau störf lúta oft að því að vinna með fólk. Því miður virðist það vera þannig að gildi slíkra starfa til launa eru oft og tíðum lægra metin en annarra starfa, t.d. þess að gæta peninga. Það virðist oft vera talið miklu mikilvægara og fyrir það eigi maður að fá hærra greitt en það að hugsa um fólk, að mennta fólk og kenna fólki, að það skipti ekki svo miklu máli að fyrir það eigi að greiða há laun. Eins og ég sagði hafa þessar stéttir oft og tíðum verið kallaðar kvennastéttir, sem hafa í raun og veru verið með manngildissjónarmið.

Við vitum að margar konur standa daglega í þeirri baráttu að reyna að samræma heimilislíf og þátttöku í atvinnulífi og það gera karlar að sjálfsögðu líka. Þetta er eitt af því sem við vitum öll að er ákveðinn undirliggjandi grundvallarþáttur. Öll viljum við svo gjarnan eiga gott heimili og búa börnum okkar gott heimili en um leið viljum við nýta þekkingu okkar, reynslu og menntun til þess að vera þátttakendur í atvinnulífinu. Það virðist því miður þannig að metnaðarfull þátttaka í atvinnulífinu virðist oft og tíðum vera mjög tímafrek og það hefur hindrað sumar konur í því að gefa sig að fullu í atvinnulífið vegna þess að þær vilja svo gjarnan hlúa að heimilunum. En með þessu er ég á engan hátt að dæma karla, mjög margir karlar hafa nákvæmlega sömu hugsjón og vilja gera þetta. Vonandi náum við einhvern tímann þeirri útópíu að það verði sjálfsagt og eðlilegt að þetta sé algjörlega samræmanlegt.

Mig langar að lokum líka til að koma inn á jafnrétti og fjölmiðla. Við verðum að horfast í augu við það að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki varðandi svo mörg mál og ekki síst jafnréttismál og alla lýðræðislega umræðu. Það kemur fram víða að miklu fleiri karlar og miklu hærra hlutfall karla eru viðmælendur í fréttum fjölmiðla um fjármálafyrirtæki, t.d. í aðdraganda bankahrunsins. Þar voru þeir 97% en konurnar voru 3%. Það virðist vera þannig að stjórnmálakarlar fái almennt meiri umfjöllun en stjórnmálakonur. Þetta er virkilegt umhugsunarefni. Til dæmis eru til rannsóknir sem sýna að fyrir kosningar til Alþingis 2009 var þar verulegur munur.

Mig langar aðeins til að vitna í nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar um fjölmiðlafrumvarpið en þar var sérstaklega tiltekið um jafnrétti. Mig langar til að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur jafnframt til þá breytingu að fjölmiðlaveitur skuli virða jafnrétti kynjanna sem og að tryggja að mismunandi sjónarmið komi fram í umfjöllun um fréttir og fréttatengt efni, jafnt karla og kvenna. Meiri hlutinn leggur á það þunga áherslu að ákvæði jafnréttislaga verði virt í störfum og umfjöllun fjölmiðla á Íslandi enda er jafnrétti kynjanna einn af hornsteinum lýðræðisins.“

Hér sjáum við að enn einu sinni er minnt á að það séu gildandi jafnréttislög í þessu landi. Aftur og aftur er verið að tíunda það.

Það kemur einnig fram í fjölmiðlafrumvarpinu að fjölmiðlaveitum ber að skila inn ákveðnum skýrslum til fjölmiðlanefndar þar sem kemur fram hvernig þessum málum er skipað hjá þeim, þar sem í raun og veru kemur fram ákveðin jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun um það hvernig vinna eigi gegn staðalímyndum kynjanna.

Við verðum að horfast í augu við það að birtingarmynd kynjanna í fjölmiðlum skiptir mjög miklu máli. Þar kemur fram ákveðin fyrirmynd komandi kynslóða. Við verðum að tryggja að það komi fram í fjölmiðlum að konur og karlar hafi jöfn áhrif í samfélaginu og jöfn tækifæri. Til að við getum í raun komist alla þá leið sem við viljum fara í jafnréttismálum verðum við að vera góðar fyrirmyndir komandi kynslóða þannig að eftir einhverja áratugi þurfum við ekki að vera að samþykkja hér og vinna með jafnréttisáætlanir.

Ég vil enda mál mitt eins og ég hóf það. Við stefnum að samskipun í samfélaginu þar sem áætlun eins og þessi er óþörf en í leiðinni verðum við víst að horfast í augu við að svona áætlun þarf að vera til, vönduð og markviss. Mér finnst þessi áætlun vera það og þess vegna styð ég hana heils hugar.