139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hvernig stæði á því að karlmenn sæki minna í háskóla en konur og hvað ylli því. Ég held að ég hafi svarið og ég kom með það fyrir nokkrum árum, það er hve börn eru oftryggð í kerfinu. Ég leyfi mér að segja oftryggð vegna þess að ég hygg að það sé borgað og lánað með barni — fyrir mörgum, mörgum árum voru það 70–80 þús. kr. með hverju barni sem viðkomandi fékk lánað eða í styrk. Það þýðir, vegna þess að börn eru af einhverjum dularfullum ástæðum yfirleitt hjá móðurinni við skilnað, að það er mjög hvetjandi fyrir konur með börn, þar sem það eru oftast konur en ekki karlar, að fara í háskóla. Þetta er eitthvað sem þarf að kanna í öllu kerfinu, hvort það sé virkilega þannig að kerfið breyti hegðun fólks, að einhverjir hópar fara í háskóla frekar en aðrir vegna þess að bótakerfið hvetji til þess. Þetta held ég að sé mjög brýnt að skoða.

Vegna spurningar hv. þingmanns mun ég fara í það núna að kanna þetta aftur, hvernig þessar bætur og lán frá lánasjóðum koma inn. Það sem er athyglisverðast í þessu öllu saman er að námsmenn fá lánað fyrir framfærslu, eru þar af leiðandi ekki með háar tekjur og þar af leiðandi fá þeir barnabætur skattkerfisins. Ef þeir eru öryrkjar fá þeir engar skerðingar o.s.frv. Þeir fá allt saman meira og minna óskert af bótum og fá lán þess utan fyrir framfærslunni. Þetta er náttúrlega mikill galli í kerfinu af því að lánin eru yfirleitt ætluð til framfærslu og bæturnar sömuleiðis. Það eru skerðingar á bótunum vegna tekna til að mæta því að menn hafi annað til framfærslu.