139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir áliti umhverfisnefndar um 707. mál þingsins sem fjallar um breytingar á hreindýragrein villidýralaganna svokölluðu. Þessar breytingar ná til reglna um hreindýraveiðar, fjalla um breytingar á reglum um leiðsögumenn í hreindýraveiðum og skiptingu arðs af veiðunum. Það er ætlunin að gera reglur um útgáfu leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum skýrari, gera meiri hæfniskröfur til veiðimanna, styrkja lagastoð ákvæða sem hafa verið í reglugerðum en ekki reynst standast sem skyldi þegar reyndi á og skýra kröfur um þekkingu leiðsögumanna.

Það er rétt að taka fram í upphafi að hreindýraveiðar eru auðvitað sérstakar veiðar á okkar landi, líkari safaríferðum í suðrænum löndum en hefðbundnum íslenskum veiðum, fuglaskytteríi eða grenjalegu, og þarf auðvitað um þær annars konar reglur og nokkuð ítarlegri en veiðar af hefðbundnu tagi.

Á fundum okkar um þetta mál ræddum við eðlilega mest um þá ætlun að láta veiðimenn gangast undir skotpróf, um samstarf Umhverfisstofnunar og skotfélaga um þau próf, um arð til landeigenda sem heimila veiðar á löndum sínum, um samskipti leiðsögumanna og landeigenda og fengum til okkar gesti frá umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun, mann frá Bændasamtökum Íslands fyrir hönd landeigenda og stjórnarmenn í Skotveiðifélagi Íslands.

Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er í gangi heildarendurskoðun á þeim lögum sem hér um ræðir, þar á meðal þeim ákvæðum og reglum sem gilda um hreindýraveiðar. Við gerum ráð fyrir því að í þessari endurskoðun felist stefnumótun um hreindýraveiðarnar og teljum því ekki ástæðu til að fjalla um aðra þætti þeirra en um er fjallað í frumvarpinu sjálfu. Það má nefna að þeirri tillögu var hreyft við nefndina að reyndir veiðimenn gætu fengið að veiða einir án leiðsögumanns, e.t.v. eftir sérstakt próf. Nefndarmönnum þótti þetta athyglisvert en hyggjast ekki gera meira í því að sinni en að beina því til endurskoðunarnefndarinnar að kanna hvort heppilegt sé að koma á slíkri skipan og þá með hvaða hætti.

Við fjölluðum nokkuð um tillöguna um skotprófin. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að dýraverndarsjónarmið ráði för þegar farið er til veiða. Við fengum þær upplýsingar á nefndarfundinum að of mörg dýr væru illa skotin, sem er illt að heyra, og að það sé ein af ástæðunum fyrir því að veiðimenn þurfi að sýna fram á færni sína áður en þeim er úthlutað veiðileyfinu eða áður en þeir taka til veiðanna.

Langflestir veiðimenn eru í góðu lagi hvað þetta varðar en hitt ber við að menn eru ekki í æfingu og jafnvel ekki í góðu líkamlegu ástandi sem dregur auðvitað úr hæfni þeirra til veiðiferðarinnar, það dregur úr sjálfri skotfiminni. Nefndin fékk að vita og bendir á að annars staðar á Norðurlöndum eru skotpróf af þessu tagi forsenda þess að fá úthlutað veiðileyfi þannig að hér er ekki verið að taka upp á neinni nýjung í svæðislegu samhengi. Við fengum líka upplýsingar um það að stundum sé veiðileyfum úthlutað eftir 1. júlí. Sá dagur er í frumvarpinu tiltekinn sem síðasti leyfði dagur fyrir þessi skotpróf. Það getur hent að veiðimaður hætti við og þá er öðrum á biðlista úthlutað leyfinu. Þess vegna leggjum við til í einni breytingartillögu af fjórum að Umhverfisstofnun verði heimilt að veita veiðimanni sem svo háttar til um frest til að skila inn staðfestingu um skotpróf eftir að hann fær vilyrði um leyfi og leggi hana fram áður en hann fær það.

Það er enn fremur ljóst að það er skammur tími til stefnu til að uppfylla skilyrði um skotpróf á komandi veiðitímabili og við leggjum því einnig til að skotprófsákvæði frumvarpsins taki ekki gildi fyrir þetta sumar heldur 1. janúar 2012, fyrir næsta veiðitímabil á eftir því sem nú er að hefjast

Við ræddum nokkuð um framkvæmd skotprófa því að ekkert segir í frumvarpinu um hvernig þau eigi að vera. Við fengum meðal annars að sjá uppkast að reglugerð um það hvernig skotprófin eiga að vera. Þau eiga að vera tiltölulega einföld þannig að það er ekki mikið nám eða mikil athöfn að taka þetta próf. Það má það heldur ekki vera. Við fengum líka um það upplýsingar eftir nokkra umræðu í okkar hópi og við gesti að Umhverfisstofnun hafi ætlað sér að gera samning við skotfélögin um að annast framkvæmd skotprófanna eins og okkur þótti eðlilegt að yrði, að ekki væri um það að ræða að opinberir starfsmenn á vegum Umhverfisstofnunar færu um landið með einhverjum hætti eða að veiðimenn færu til einhverrar lítillar stofnunar, skotprófastofnunar, heldur að þessu verkefni yrði útvistað til þeirra sem eðlilegt er að annist það, nefnilega félagasamtaka og einstaklinga sem hafa aðstöðu, menntun og reynslu til þessa. Skotvellir munu vera fimm á landinu í eigu skotfélaga, í Reykjavík, Keflavík, Þorlákshöfn, á Sauðárkróki og Egilsstöðum ef ég man rétt, og það er skynsamlegt að þar fari prófin fram. Til að taka af öll tvímæli um þetta leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu í þá veru að Umhverfisstofnun verði beinlínis heimilt að semja við skotfélög eða aðra um umsjá verklegs skotprófs. Þar með er hún auðvitað hvött til að gera það en þó er um heimildarákvæði að ræða þannig að sé reynslan ekki góð af því kann að verða að taka upp annan kost.

Nefndin fjallaði líka nokkuð um úthlutun arðs til landeigenda og samskipti leiðsögumanna við landeigendur. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi skipulagi þannig að landeigandi verður að leyfa veiðar allt veiðitímabilið vilji hann fá arð af veiðunum. Sú skipan er nú á þessum málum að sá sem ekki leyfir veiðar á landi sínu fær ekki arð af veiðunum.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er nauðsynlegt að sem flestir landeigendur leyfi veiðar á landi sínu til að kerfið virki sem skyldi. Með því fyrirkomulagi arðgreiðslna sem lagt er upp með í frumvarpinu er líklegt að álagið dreifist betur en nú á veiðisvæðin og það er þess vegna hvati fyrir landeiganda til að leyfa veiðar á landi sínu. Með þessum breytingum er jafnframt girt fyrir að landeigendur hafi bein afskipti af veiðunum, þetta ræddum við nokkuð, t.d. að þeir geti sagt til um það hverjir mega veiða og hvenær, hvaða veiðimenn eða undir stjórn hvaða leiðsögumanns má veiða. Þó að slík afskipti geti verið eðlileg við aðrar aðstæður eru þau ekki góð í þessari skipan. Í raun og veru hafa menn orðið sáttir um að hér sé um eins konar samlag landeigenda að ræða og þá verða menn að standa sig í því félagi þannig að allir hafi jafna stöðu og að veiðilendan nýtist eins og eðlilegast er og að ekki verði ofnýting á einum stað og vannýting á næsta.

Nefndin tekur hins vegar undir sjónarmið landeigenda um að það sé eðlilegt að þeir geti fylgst með umferð á landi sínu og að samráð sé við þá haft, t.d. vegna smalamennsku, áður en haldið er til veiða. Við fengum líka upplýsingar um að bændur eru misáhugasamir um þessar upplýsingar, en landeigendur í þessu tilviki eru flestir bændur. Sumir vilja fylgjast náið með umferð á sínu landi en öðrum þykir jafnvel ónæði að sífelldum tilkynningum um veiðiferðir. Nefndin telur heppilegt að setja upplýsingaveitu um þetta í einhvers konar farveg, t.d. með reglugerðarákvæði. Við vitum um starf umsjónarmanns Umhverfisstofnunar á Austurlandi og teljum að hann ætti að geta annast þessa upplýsingamiðlun, eins og hann reyndar þegar gerir, og að þessu væri vel komið fyrir á hreindýravefsíðu Umhverfisstofnunar, hreindyr.is, sem allir hreindýraáhugamenn þekkja nú þegar.

Við ræddum líka um störf núverandi leiðsögumanna með tilliti til þessara breytinga í frumvarpinu og höfum verið fullvissuð um að þeir leiðsögumenn sem nú hafa rétt haldi þeim réttindum út sinn leyfistíma. Fyrir nefndinni var hins vegar komið á framfæri þeirri athugasemd að það væri heldur skortur á leiðsögumönnum en hitt og að sá skortur gæti verið bagalegur, gæti jafnvel spillt veiðunum með því að skortur skapar ákveðinn hvata til þess að menn nái strax hinu formlega markmiði veiðanna sem er það að fella þau dýr sem leyfi er til að fella. En hið formlega markmið er ekki endilega það eina sem menn vilja hafa úr veiðiferðum og óheppilegt að menn stefni eingöngu að því að ná þessum árangri. Það getur skapað streitu og óþol sem eru ekki heppilegir fylgifiskar veiða af þessu tagi. Þess vegna er mikilvægt að það sé ævinlega hæfilegt framboð af leiðsögn og við leggjum til í breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins að 3. mgr. verði þannig orðuð að þegar Umhverfisstofnun metur þörf á að halda námskeið fyrir leiðsögumenn sé meðal annars miðað við eðlilega nýliðun í þeirra hópi.

Undir nefndarálitið sem hér hefur verið stiklað á rita allir nefndarmenn nema einn, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem var fjarri þegar málið var tekið út en fylgdist þó vel með, tveir þeirra með fyrirvara, hv. þm. Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir, en aðrir án fyrirvara, auk mín hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Skúli Helgason.

Ég þakka nefndinni fyrir góða og snarpa vinnu að þessu máli sem í sjálfu sér var einfalt. Það var skemmtilegt að sínu leyti að kynnast þeim heillandi heimi sem upp kemur á hverju ári síðsumars á heiðum á Austurlandi, að eiga við þennan sérkennilega hluta af fánu Íslands. Það er alltaf gaman í störfum sem oftar fjalla um paragröf og alls konar bírókratískar undantekningar og reglur að komast í kynni við eitthvað sem gæti talist í átt við raunveruleika og fyrir hönd nefndarinnar þakka ég fyrir að hafa átt þess kost.