139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[17:35]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni umhverfisnefndar fyrir þetta góða mál. Ég held að hér sé verið að vinna gott starf og að þær breytingar sem eru vonandi að verða innan tíðar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum séu virkilega af hinu góða.

Það eru tvö atriði sem mig langar aðeins til að fá nánari skýringu á. Ég held að það atriði sem hv. þingmaður reifaði talsvert, þetta með skotprófið, sé mjög gott mál, það skiptir mjög miklu máli. Hv. þingmaður segir að sem betur fer eigi ekki að búa til skotprófsstofnun Íslands heldur eigi að fela fólki sem til þess sé fallið á hinum ýmsu stöðum að meta hæfni fólks. Ég er svolítið hugsi yfir því hvernig samið verður um það. Maður fer ekki bara í próf, það er ljóst að maður hlýtur að þurfa að æfa sig. Er gert ráð fyrir því að sérstaklega verði samið um það? Að auki er ekki nóg að taka slíkt próf einu sinni. Ef við tölum sérstaklega um hreindýraveiðar þá fer fólk í slíkt próf einu sinni á ári því að það þarf að viðhalda hæfni sinni. Hefur eitthvað verið hugsað fyrir því að jafnframt verði samið um að æfingar verði fyrir prófið, til að viðhalda hæfninni, og þá hvort það verður ekki undir leiðsögn þess sama fólks sem síðan metur hæfnina?

Annað atriði finnst mér skipta mjög miklu máli en það er talið upp síðast af því sem leiðsögumenn þurfa að hafa til brunns að bera, en það er að þeir þurfa að þekkja staðhætti á viðkomandi veiðisvæði. Ég velti því fyrir mér hvernig staðið verður að því að meta það hverjir þekkja það vel til á viðkomandi veiðisvæðum að þeir fái réttindi til að vera leiðsögumenn þar. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra hv. þingmann svara því.