139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þessar spurningar eru nokkuð á dýptina frá sjónarmiði sjálfra laganna. Um skotprófin og æfingu fyrir þau er það að segja að ekki er gert ráð fyrir því að af opinberri hálfu séu skipulagðar æfingar. Það er prófið og áður en menn fara í próf þurfa þeir að æfa sig og gera það væntanlega á þeim skotvöllum sem til greina koma en þó ekki þannig að prófdómarinn sé kennari, það er ekki gott.

Ég held að það sé raunar regla þeirra veiðimanna sem standa í stykkinu, sem eru langflestir sem betur fer, að þeir æfa sig áður en þeir fara á veiðar og fara ekki öðruvísi en að vera nokkuð æfðir. Mér skilst líka að leiðsögumenn, almennilegir leiðsögumenn, sem þeir eru flestir, láti reyna á það núna, biðji menn að skjóta og geri jafnvel athugasemdir við líkamsástand og skammtímavaxtarlag ef þurfa þykir. Það hefur jafnvel komið fyrir að leiðsögumenn hafa neitað að fara með menn sem eru ekki í ástandi, þá á ég við líkamlegu, sem sé nógu þjálfaðir til þess að ganga í gegnum þá raun sem ferðin var.

Um svæðin er það að segja að mér skilst að prófið fyrir leiðsögumenn gangi út á tiltekin svæði, menn sæki um að vera leiðsögumenn á ákveðnu svæði. Um þetta var einmitt spurt og gerð við það athugasemd fyrir nefndinni, hvort þetta þyrfti að vera svona, hvort menn gætu ekki orðið leiðsögumenn á öllu svæðinu, en aðrir sem fyrir nefndina komu, kunnáttumenn, töldu algjörlega nauðsynlegt að leiðsögumaðurinn væri sérfræðingur í sínu svæði, einu eða fleirum.