139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[17:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er ekki alveg að ástæðulausu að kílóið af hreindýrakjöti kostar talsvert því að það að fara á hreindýraveiðar krefst þokkalegra líkamlegra burða auk ýmislegs annars.

Ég þakka kærlega fyrir svarið varðandi skotprófið, þá veit ég að það er á ábyrgð verðandi próftaka að vera til þess fullfær þegar hann kemur í prófið að geta tekið það.

Varðandi þekkingu á landsvæðum verð ég að viðurkenna, af því að ég á talsverða reynslu á þessu sviði — þó að ég hafi ekki mikið verið á hreindýraveiðum sjálf hafa aðilar mér tengdir talsvert verið það. Ég veit að það skiptir mjög miklu máli þegar eitthvað kemur upp á, t.d. þegar veður breytast eða eitthvað sérstakt gerist, að til staðar sé mjög haldbær og góð þekking á viðkomandi svæði til þess að geta valdið þeirri ábyrgð sem það er að vera með jafnvel fleiri en einn aðila á ferð í óbyggðum landsins.

Mig langar því til að spyrja hvort eitthvað hafi verið rætt frekar um þetta próf: Er þetta eingöngu bóklegt próf? Eða er gert ráð fyrir því að viðkomandi fari að einhverju leyti á svæðið og geri sér þá grein fyrir hugsanlegri hættu eða hugsanlegum áhættuþáttum sem þar geti verið þannig að viðkomandi leiðsögumaður sé fullkomlega í stakk búinn til að takast á við það verkefni að leiða fólk um svæðið við allar þær aðstæður sem upp geta komið?