139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

skil menningarverðmæta til annarra landa.

649. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. menntamálanefndar um frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. Þetta er hið fyrsta af fjórum frumvörpum um safna- og minjamál sem nefndin tekur til afgreiðslu. Hin frumvörpin eru frumvarp um safnalög, frumvarp um menningarminjar og frumvarp um Þjóðminjasafn Íslands.

Menntamálanefnd hefur fjallað um þetta frumvarp en tilgangur þess er að að vernda þjóðarverðmæti og önnur skilgreind menningarverðmæti á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja með samræmdum reglum skil á menningarverðmætum til annarra landa hafi þau verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 105/2001, um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, en þau voru á sínum tíma lögfest til samræmis við tilskipun ráðs Evrópusambandsins nr. 7/1993 í samræmi við EES-samninginn. Það hefur sýnt sig í framkvæmd að þessi lög veita íslenskum menningarverðmætum ekki fullnægjandi vernd gegn óheftum útflutningi en í lögunum er miðað við verðgildismörk menningarminja sem ekki hafa reynst vera í neinu samræmi við verðlag þeirra á íslenskum markaði. Það þykir því eðlilegt að greina á milli löggjafar um íslenskar menningarminjar og flutning þeirra til annarra landa annars vegar og hins vegar laga um skil á erlendum menningarminjum sem önnur ríki hafa skilgreint sem þjóðarverðmæti sín. Sú breyting er því gerð nú að gera greinarmun á þessum inn- og útflutningi menningarminja, ef svo má að orði komast, með því að fella kafla um takmörkun á eftirlitslausum flutningi íslenskra menningarminja úr landi inn í hið nýja frumvarp um menningarminjar en setja ákvæði um skil á erlendum menningarverðmætum til annarra landa í sérstök lög með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar.

Helstu breytingar þessa frumvarps um skil menningarverðmæta til annarra landa frá gildandi lögum eru að nú eru verkefni á þessu sviði sem safnaráð hefur haft með höndum flutt til nýrrar ríkisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, sem lagt er til að annist framkvæmd laganna fyrir hönd íslenska ríkisins. Stofnunin á að leggja mat á verðgildi menningarminja sem annað ríki krefst skila á, taka við kröfum um skil og hafa samstarf við valdbær stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja. Þá er í frumvarpinu kveðið á um samráð Minjastofnunar Íslands við tilteknar menningarstofnanir eftir því sem við á um mat á verðgildi viðkomandi menningarverðmæta og er þar m.a. vísað til Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og annarra höfuðsafna í landinu.

Nefndin tekur undir sjónarmið umsagnaraðila þess efnis að breytt lagaumhverfi um skil menningarverðmæta muni stuðla að mikilvægum framförum á sviði safnastarfs og minjavörslu sem og að skýra hlutverk þeirra stofnana sem þar hafa lagaskyldum að gegna.

Nefndin leggur til eina mikilvæga breytingu á frumvarpinu sem lýtur að því að veita tollyfirvöldum hér á landi heimild til haldlagningar erlendra menningarminja. Fram kemur í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins að tollyfirvöld skuli tafarlaust tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins. Kveðið er á um heimildir tollgæslu til haldlagningar í 161. gr. tollalaga, nr. 88/2005, en þar segir að tollgæsla skuli leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í sakamáli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir vegna brota á tollalögum eða öðrum lögum. Þar sem um er að ræða þvingunarráðstöfun er það mat nefndarinnar að skýlaus heimild tollgæslu til haldlagningar sé nauðsynleg og leggur hún því til fyrrnefnda breytingu á ákvæðinu. Með hliðsjón af meðalhófsreglunni vill nefndin jafnframt ítreka að valdbeitingarheimildin er bundin því skilyrði að aldrei má ganga lengra í beitingu hennar en nauðsynlegt reynist hverju sinni.

Virðulegi forseti. Hv. menntamálanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með umræddri breytingu sem er að finna í nefndaráliti nefndarinnar.

Undir álitið rita allir fulltrúar í hv. menntamálanefnd.