139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra er annar af tveimur þingmönnum sem var hér árið 1990. Þá sagði hún: Frjálst framsal er grundvallaratriði til að auka hagkvæmni í greininni. Þá sagði hún: Við þurfum að leyfa veðsetningar í greininni. Þá sagði hún: Við þurfum að byggja á einföldu kerfi, aflahlutdeild, og fækka undanþágum. Þá sagði hún: Ráðherrann á ekki að vera að vasast í þessum málum.

Nú segir hún: Frjálst framsal er skaðvaldur og til þess fallið að auka á og ýta undir sérhagsmunagæslu. Nú segir hún: Það þarf að auka völd ráðherrans. Nú segir hún: Það er bannað að veðsetja. Og nú segir hún að við þurfum að fjölga þeim leiðum sem menn geti sótt inn í kerfið. Það er öllu snúið á hvolf, öllu því sem menn voru áður sammála um að mundi auka hagkvæmni í greininni. Því á núna að ljúka og banna. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Staðreynd málsins er sú að við þurfum ekki á því að halda að fjölga þeim sem sækja sjóinn. Við þurfum á því að halda að hámarka (Forseti hringir.) afrakstur greinarinnar og hæstv. forsætisráðherra skilur ekki að almannahagsmunir eru undir. (Forseti hringir.) Hagsmunir okkar liggja með greininni, með því að við fáum hámarksafrakstur (Forseti hringir.) af þeim fiskveiðum sem hér eru stundaðar. (Gripið fram í: Þurfum að færa …)