139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

uppsagnir á Herjólfi.

[10:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað væri best ef einfaldlega væri hægt að treysta fyrirtækjum almennt til að miða við þá þætti sem ég nefndi þegar kemur að ákvörðun um það hvort segja þurfi upp starfsmönnum eða ekki. Svona fréttir og frásagnir eru mjög mikið áhyggjuefni, sérstaklega í því atvinnuástandi sem núna ríkir á Ísland. Við búum við atvinnuleysistölur sem við höfum varla séð frá því í kreppunni miklu. Ég tel að við eigum að taka þetta mál til afgreiðslu í þinginu. Þetta liggur núna í félags- og tryggingamálanefnd og þar er talað um þrjá þætti sem atvinnurekandi þurfi að hafa í huga þegar hann rökstyður uppsögn starfsmanns. Við verðum að bregðast þannig við að við tryggjum öryggi starfsmanna en gætum um leið náttúrlega að þeim sveigjanleika sem fyrirtæki þurfa líka að hafa (Forseti hringir.) upp á hvernig þau haga sínum rekstri. Ég vonast til að ráðherrann taki undir að við afgreiðum þetta mál (Forseti hringir.) á þessu þingi.