139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

tannvernd barna.

[10:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið í ljós á undanförnum missirum og hefur verið í umræðu í nokkur ár að tannvernd barna og tannvernd almennt á Íslandi hefur verið einn veikasti þátturinn í heilbrigðiskerfinu. Ýmsar skýringar eru á því og fyrst og fremst kannski hefur maður haft áhyggjur af því að tannlæknaþjónustan er einkavædd hjá okkur og það hefur gengið illa að ná samningum um með hvaða hætti veita eigi þjónustu af hálfu ríkisins. Menn sögðu sig frá samningi fyrir margt löngu. Svo náðist samkomulag um að vera með forvarnaþjónustu. Ákveðnir aldurshópar hafa fengið ókeypis tannvernd óháð því hvar hún er veitt. Þá náðist samkomulag um hvaða verð ætti að greiða fyrir slíka þjónustu.

Nú er það þannig að 40% hafa sagt sig frá samningi hvað þetta varðar og það er auðvitað mismunandi á hvaða svæðum þeir eru. Þeir hafa ekki einu sinni tekið þátt í því að bjóða upp á fyrirbyggjandi þjónustuna. Þetta er gríðarlegt vandamál og mikið áhyggjuefni að við skulum ekki geta boðið upp á heildarþjónustu. Helst hefði ég viljað sjá að tannlæknaþjónusta barna væri greidd að fullu eins og önnur heilbrigðisþjónusta er greidd að fullu af ríkinu. Þar höfum við haft fjármagn sem hefur numið því að við hefðum getað boðið upp á allt að 75% þátttöku í tannvernd barna, tannheilsu, sem sagt öllum viðgerðum, en vandamálið er eins og ég hef áður komið að í ræðustól að meðan einn býður 10 þús. kr. og annar 15 þús. í sama verk og við erum að reyna að lofa 75% af einhverju þá gengur þetta ekki upp. Ég hef heitið á tannlækna að koma að þessu borði og vinna með okkur í að finna lausn á þessu.

Það er rétt sem hér kemur fram að við höfum brugðist við þessu neyðarástandi, sem ég tel vera, varðandi tannvernd barna og það að fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis með því að bjóða upp þessa þjónustu. Þetta var að frumkvæði tannlæknadeildar á sínum tíma og hefur verið gert áður. Nú er þetta gert öðru sinni. Það er alveg rétt að það eru vankantar á þessu. Ef til vill hefðum við átt að auglýsa eftir því hvort menn vildu koma og vinna þessa þjónustu á ólíkum stöðum á sama verði og þarna er boðið þar sem menn leggja til tannlæknastólana sem eru til í Tanngarði, auglýsa eftir tannlæknum sem vildu koma og þjónustu okkur. (Forseti hringir.) Til að jafna stöðuna var boðið upp á að endurgreiða ferðakostnaðinn en það er alveg rétt að það er ekki jafnræði þar á milli landshluta. Ég kem kannski betur að því í síðara svari.