139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

tannvernd barna.

[10:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að segja að ég er orðinn þreyttur á því þegar menn nota börn endalaust til að berjast fyrir hagsmunum og kjarabaráttu einstakra starfsstétta. (Gripið fram í.) Ég var skólastjóri í 26 ár og það þarf ekkert að vera að draga það fram að það sé eineltisspursmál að senda börn einhvers staðar í tannlæknaþjónustu utan heimabyggðar, það er bara verið að búa til storm í vatnsglasi. Það þori ég að segja sem uppeldismenntaður skólastjóri sem veit hvað er verið að tala um. Það breytir ekki því að sem landsbyggðarmaður vil ég fá þessa þjónustu út á land. Það breytir heldur ekki því að ég vil ekki þurfa að senda menn til tannlækna … (Gripið fram í.) Ég vil þá fá svör frá þeim sem hér eru: Hvernig stendur á því að það eru tíu ár sem við höfum verið án samninga og við höfum ekki ráðið við þetta? Af hverju þegar góðærið var, þegar við höfðum alla peninga og skilyrðin? (Gripið fram í: Þú ert ráðherra …) Nú er ég með þá og er að vinna í þessu og mun beita mér fyrir því [Frammíköll í þingsal.] af fullum krafti. Ég skora á ykkur að koma með okkur í liðið að berjast fyrir því að tannlæknar komi á samning og við bjóðum upp á þessa þjónustu. Ég hef ekki viljað ríkisvæða tannlækningar, hef sagt það við tannlækna. Ég vil halda óbreyttu kerfi en þá verða þeir að koma í liðið. (Gripið fram í: … peningarnir?) Þeir koma frá okkur sameiginlega og þeir koma af þeim peningum sem eru í Sjúkratryggingum til tannlækninga og fara í það að vinna fyrir börn með miklu ódýrari hætti en annars, fyrir barnahópinn nákvæmlega eins og til var ætlast. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)