139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

jöfnun flutningskostnaðar og strandsiglingar.

[10:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U):

Frú forseti. Ekki er langt síðan ríkisstjórnin hélt opinn ríkisstjórnarfund á Ísafirði og ræddi þar m.a. um atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og þá miklu fólksfækkun sem þar hefur orðið á undanförnum árum og áratug. Nú berast okkur fréttir af því að eitt fyrirtæki hyggst flytja alla sína starfsemi suður til Reykjavíkur vegna stóraukins flutningskostnaðar. Þetta er rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði. Þetta fyrirtæki greiðir í dag á annað hundrað milljónir í flutningskostnað og forsvarsmenn fyrirtækisins segja að það sé raunar ekki mögulegt að reka fyrirtæki á landsbyggðinni meðan þessi gríðarlegi munur á flutningskostnaði er.

Fyrir rúmu ári var unnin skýrsla sem hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, kynnti og fjallaði um strandsiglingar og möguleikana á því að hefja strandsiglingar við Ísland til að ná niður flutningskostnaði. Lítið hefur gerst í þessum málum síðan þá en á sama tíma og boðaðar eru aðgerðir á þessu svæði þar sem fólksfækkun hefur orðið svona gríðarlega mikil horfum við upp á það að hvert fyrirtækið á fætur öðru er að sligast vegna þessa gríðarlega flutningskostnaðar. Í því ljósi langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hvað líður aðgerðum í jöfnun flutningskostnaðar og strandsiglingum? Er að vænta einhverra tíðinda í þessum efnum eða eru þessi mál enn þá í nefndum og í ráðuneytinu og ekki neinar aðgerðir í nánd?