139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

jöfnun flutningskostnaðar og strandsiglingar.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn, hún er mikilvæg. Hv. þingmaður vísar í fund ríkisstjórnarinnar á Ísafirði ekki alls fyrir löngu þar sem þessi mál bar m.a. á góma og jafnframt sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að treysta samgöngukerfið á Vestfjörðum en í því er fólgin ákveðin jöfnunaraðgerð í sjálfu sér. Þessi mál komu líka upp á fundi um atvinnumál á Vestfjörðum sem ég sótti um hálfum mánuði eftir að ríkisstjórnin hélt sinn fund á Ísafirði. Einnig þá bar þessi mál á góma og ég skýrði frá því að í ráði væri að skipa starfshóp sem tæki á strandsiglingum sérstaklega.

Í morgun skrifaði ég undir erindisbréf til þessa starfshóps sem mun starfa undir forsæti Guðmundar Kristjánssonar, hafnarstjóra á Ísafirði, til að undirbúa tilraunaverkefni í strandsiglingum. Þetta eru ekki bara orð, þetta verða athafnir. Við munum ganga í þetta verkefni að koma á strandsiglingum. Við munum gera það í fyrstu í tilraunaskyni en það verður ráðist í þá aðgerð.