139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

lánafyrirgreiðsla til sjávarútvegsfyrirtækja.

[11:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita þurfa flestir sem hefja atvinnurekstur á lánafyrirgreiðslu að halda til að standa undir stofnkostnaði við að setja fyrirtæki sín á fót. Þetta á við jafnt í verslun, þjónustu og landbúnaði, og ekki síður í sjávarútvegi vegna þess að menn þurfa að ráðast í fjárfestingar. Til að eiga kost á lánsfjármögnun þurfa menn að veðsetja eigur til tryggingar á lánunum og yfirleitt eru þá lagðar að veði eigur rekstrarins eða fyrirtækisins.

Í því frumvarpi sem mér skilst að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggist leggja fram á þingi og hefur verið dreift alls staðar annars staðar en á Alþingi er lagt blátt bann við beinum og óbeinum veðsetningum í sjávarútvegi. Þetta þýðir að verði frumvarpið að lögum mun engin lánastofnun lána fjármuni til sjávarútvegsins ef veðsetningar verða bannaðar vegna þess að þá fá lánafyrirtækin engar tryggingar fyrir lánunum. Á fáum sviðum eru veðsetningarheimildir þó jafnmikilvægar og í sjávarútvegi vegna þess að stofn- og fjárfestingarkostnaður í þeirri grein er gríðarlegur, hvort sem er í aflaheimildum, veiðarfærum eða fiskiskipum. Þetta þýðir í mínum huga að engin nýliðun verður í sjávarútvegi. Þetta þýðir að þeir sem vilja hasla sér völl í atvinnugreininni munu ekki eiga þess kost nema þeir hafi fyrir fullar hendur fjár. Ég fæ því ekki betur séð en að í frumvarpinu felist að einungis auðmenn geti hafið rekstur í nýjum sjávarútvegi.

Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort þetta sé sú stefna sem hæstv. ráðherra ætlar að berjast fyrir með framlagningu hinna nýju (Forseti hringir.) frumvarpa, þ.e. að útiloka og koma í rauninni í veg fyrir nýliðun í þessari mikilvægu atvinnugrein.