139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

lánafyrirgreiðsla til sjávarútvegsfyrirtækja.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Frumvörpunum sem hv. þingmaður vísar til verður vonandi dreift á Alþingi á eftir og þar kemur að sjálfsögðu fram að allir þeir þættir sem verið er að fjalla um mynda þar eina heild. Hv. þingmaður gerði að sérstöku umræðuefni veðsetningar og það að fá að veðsetja óveiddan fisk. Í gildandi lögum er það reyndar ekki heimilt þó að menn hafi fundið einhverjar fjallabaksleiðir. Það hefur verið meint umræða um að veðsetningar byggðu á því. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að í þessu frumvarpi er kveðið á um að ekki megi setja nýjar veðsetningar sem höfði beint til þess að verið sé að veðsetja aflaheimildir, óveiddan afla.

Margar atvinnugreinar búa við það að mega ekki veðsetja eitthvað sem þær hafa ekki í hendi þó að væntingar séu til þess og öll tæki til. Tökum til dæmis ferðaþjónustuna sem byggir á því að ferðamenn komi til landsins. Við getum ekki veðsett Þjóðverja, Búlgara, Ameríkumenn eða aðra sem væntanlega koma. Hins vegar erum við með og leitum eðlilega lánafyrirgreiðslna. Við leggjum fram viðskiptaáætlanir, leggjum fram eignir okkar, þekkingu og færni í þessum efnum til að stunda tiltekinn atvinnuveg. Fiskurinn í sjónum er að sjálfsögðu ein dýrasta auðlind þjóðarinnar og þær lánastofnanir sem færu að meta þetta eins og hv. þingmaður sagði valda þá bara sjálfum sér og hlutverki sínu tjóni.