139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[11:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega sérkennilegt frumvarp. Hæstv. iðnaðarráðherra skipaði nefnd um miðjan febrúar til að fara yfir starfsemi Byggðastofnunar. Í miðjum klíðum er þetta frumvarp síðan lagt fram til að breyta fyrirkomulagi á stjórn Byggðastofnunar. Það er sagt að þetta sé í hagræðingarskyni. Ég blæs á það. Sparnaðurinn er varla merkjanlegur. Það er líka sagt að verið sé að bregðast við nýjum lögum sem hafa verið sett á Alþingi um hæfisskilyrði stjórnenda og stjórnarmanna. Það hefur ekkert með það að gera hvort fimm eða sjö sitja í stjórn Byggðastofnunar.

Hér er einfaldlega verið að reyna að ná betur utan um þetta af hálfu hins pólitíska valds. Í næstu viku verður aðalfundur Byggðastofnunar og þá munum við sjá betur til hvers refirnir voru skornir. Við sjáum formerkin á þessu strax þegar við veitum því eftirtekt hverjir eru fjarstaddir atkvæðagreiðslu í dag.