139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Frá miðju ári 2008 hafa 28 þús. störf tapast að mati Seðlabankans. Í fyrra var heildarfjöldi starfa á Íslandi um 167 þús., um mitt ár 2008 voru þau hins vegar um 195 þús. Rúmlega 17% starfa hafa því tapast á rúmum tveimur árum. Unnum vinnustundum í hagkerfinu hefur fækkað enn meira. Í fyrra voru um 14 þús. án atvinnu á Íslandi, um 14 þús. höfðu horfið af vinnumarkaði eða flutt úr landi.

Augljóst er að mörg störf töpuðust í hruninu þegar fyrirtæki urðu gjaldþrota og atvinnugreinar drógust saman en störfum heldur áfram að fækka og fá ný störf verða til. Af hverju skyldi það vera?

Í hagfræði er talað um muninn á því sem einstaklingurinn ber úr býtum fyrir vinnu sína og því sem hann fer að lokum með heim sem skattfleyg. Því stærri sem þessi fleygur er, því minni hvati er til að vinna og því erfiðara að stunda atvinnurekstur. Nýverið birti OECD skýrslu þar sem fram kemur að skattfleygurinn á Íslandi hefur stækkað hvað mest af öllum löndum OECD. Öll vitum við að skattar hafa hækkað meira hér á landi en góðu hófi gegnir en ég vissi ekki að við ættum nærri heimsmet. (Gripið fram í: Hvað sagði …?)

Um 125 þús. starfsmenn vinna nú í einkageiranum. Þessir starfsmenn þurfa að bera uppi framfærslu sína og tæplega 193 þús. annarra Íslendinga. Hver starfsmaður í einkageiranum þarf því að bera uppi 1,54 aðra Íslendinga. Árið 2007 þurfti starfsmaður í einkageiranum að bera framfærslu sína og 1,29 annarra Íslendinga. Byrðin sem lögð er á starfsmenn í einkageiranum hefur því hækkað um 20% á þrem árum.

Á sama tíma hafa allir skattar hækkað. Tekjuskattar einstaklinga hafa hækkað um 9% síðan 2007 og er hann nú orðinn annar hæstur innan OECD, næst á eftir Danmörku. Virðisaukaskattur hefur hækkað um 4% og er nú sá hæsti í heimi. Jafnframt hafa skattar á fjármagn, hagnað og lögaðila verið hækkaðir og fjölmargir nýir skattar innleiddir. Skattar meðalfjölskyldu með tvö börn stóðu nærri í stað milli áranna 2009 og 2010 innan OECD. Á Íslandi hækkuðu þeir hins vegar um 5%. Skattar meðal einstaklinga hækkuðu um 3,3% á Íslandi en eins og með meðalfjölskylduna stóðu þeir nærri í stað innan OECD.

Nú er svo komið að skattumhverfi einstaklinga og fyrirtækja er þannig að enginn hvati er til að stofna ný fyrirtæki og skapa ný störf. Ofan á þetta er svo smurt óvissu sem hamlar fjárfestingu enn frekar. Það hriktir í fiskveiðistjórnarkerfinu og erlendum fjárfestum er hótað þjóðnýtingu.

Allar eru þessar skattahækkanir kynntar til sögunnar í nafni þess að ríkisfjármálin þurfi að laga. Það er vissulega rétt að fjármál ríkisins eru í ólestri en það eru til aðrar aðferðir til að laga þau. Við sjálfstæðismenn höfum margoft bent á að besta leiðin til að laga ríkisfjármálin sé að endurheimta skattstofnana. Það gerum við með því að búa fyrirtækjum það umhverfi að þau fjárfesti og ráði nýja starfsmenn, með því að endurheimta þau störf sem töpuðust í hruninu. Leiðin til að eyða óvissu er að lækka skatta á fólk og fyrirtæki eins og við tíunduðum í viðamiklum efnahagstillögum okkar sem enn eru í fullu gildi.

Það er ekki hægt að skatta sig úr vandanum en það er hægt að skatta sig í vanda eins og nú er berlega að koma í ljós, hæstv. fjármálaráðherra.