139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Á meðan þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn voru í stjórnarandstöðu töluðu þeir mikið um að allt of mikið væri verið að lækka skatta á sama tíma og sömu flokkar lögðu áherslu á mikilvægi þess að ríkisútgjöld yrðu aukin til ýmissa verkefna. Rökin fyrir þessu áttu að vera þau að með því að lækka skatta væri dregið úr þenslu, reyndar samhliða aukningu á útgjöldum ríkisins.

Hin hliðin á þeim peningi hlýtur að vera sú að í kreppu, að við niðursveiflu, hækki menn ekki skatta heldur lækki þá. Með skattstefnu sinni núna fara stjórnvöld gegn því sem sama fólk talaði fyrir árum saman. Áhrifin eru reyndar þegar farin að koma í ljós. Verulega dregur úr nauðsynlegum hagvexti, engar hagvaxtarspár ríkisstjórnarinnar eða stofnana hennar hafa gengið eftir og á sama tíma er erfiðara fyrir fólk að borga skattana sína vegna þess að það hefur miklu minna milli handanna, meira fer í að greiða af skuldum á sama tíma og verðlag í landinu hefur hækkað. Það verða því þessi tvöföldu áhrif, bæði er erfiðara fyrir fólk að standa straum af kostnaðinum við að greiða skattana og ríkið verður af nauðsynlegri uppbyggingu sem skattahækkanir og ekki síður óvissa um skattkerfið halda niðri.

Við sáum enda í gær einkunnablað íslenskra stjórnvalda. Af því að hæstv. fjármálaráðherra talaði hér um alþjóðlegan samanburð má geta þess að hann sleppti reyndar því veigamikla atriði að Íslendingar greiða sjálfir í lífeyrissjóði sína, hann reiknaði það ekki með þegar hann reiknaði skattbyrðina. En í gær var annar alþjóðlegur samanburður birtur, árlegur samanburður á samkeppnishæfni landa þar sem Ísland fékk algjöra falleinkunn en þó sérstaklega varðandi efnahagsstefnu þar sem við erum á hraðri leið niður á botninn, ekki hvað síst vegna hinnar óhagkvæmu skattstefnu stjórnvalda.