139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel rétt að byrja á því að minna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar á það umhverfi sem við störfum í. Með hruni fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins árið 2008 fór halli ríkissjóðs í 200 milljarða kr. Það voru yfir 40% af útgjöldum ríkisins. Vaxtagreiðslur voru 100 milljarðar skattkróna sem fóru í að greiða vexti af lánum í stað þess að fjármagna hér mikilvæga og opinbera þjónustu. (Gripið fram í.)

Til að mæta þessu hefur vinstri stjórnin valið blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar í útgjöldum en gætt þess að hlífa tekjulægstu hópunum og skorið hlutfallslega minnst niður í velferðarkerfinu.

Hagvöxtur fæst ekki með því að selja íslenskar auðlindir á útsölu til að fá tímabundið meiri tekjur í kassann. Hagvöxtur fæst með markvissri uppbyggingu rekstrarumgerðar atvinnulífsins, sanngjörnum leikreglum og menntun fólks til að mæta þörf hátækni- og nýsköpunarfyrirtækja fyrir vinnuafl í verðmætaskapandi greinum. Þannig tryggjum við hagvöxt til lengri tíma litið en ekki þá skammvinnu aðferð sem hugnast svo vel Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, að pissa í skóinn sinn.

Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur miðar að sjálfbærri þróun í efnahagslífi, umhverfismálum og velferðarkerfinu á Íslandi. (Gripið fram í.) Við erum komin vel á veg.