139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Svona er brugðist við, eins og við heyrðum hjá málshefjanda, þegar vitnað er í frumheimildir. Ég var með þann fyrirvara á að vitanlega þyrfti að taka tillit til þess hvernig kerfin væru útfærð, þar á meðal lífeyriskerfin. Það er rangt hjá hv. þingmanni að þó að heildarfleygurinn sé tekinn með og lífeyrisiðgjöldin þar inni — það gerir OECD þó að þann samanburð sé ekki að finna í þessari skýrslu, en ég skoðaði það sérstaklega — kemur í ljós að lífeyrisiðgjöldin breyta þessu auðvitað mest hvað okkur varðar en Ísland er fyrir neðan miðjan hóp Vestur-Evrópuríkja eftir sem áður þegar þessi útvíkkaði heildarfleygur er tekinn. Það eru þau gögn sem við höfum í fjármálaráðuneytinu frá OECD um þetta þó að þau séu ekki hér í þessari 500 blaðsíðna skýrslu. (TÞH: Þú ættir kannski að athuga það.)

Myndin sem við okkur blasir er ósköp einföld. Með þeim aðgerðum á sviði tekjuöflunar og breytingum í skattkerfi sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í í þremur þrepum, á miðju ári 2009, aftur 2010 og enn 2011, hefur tekist að stöðva tekjufall ríkisins, en ekki meir. Annars hefðu tekjustofnarnir gefið enn þá meira eftir. Í grófum dráttum heldur skattbyrðin núna sjó sem hlutfall af landsframleiðslu. Við höfum hins vegar breytt því talsvert hverjir bera byrðarnar og af því erum við stolt. Við höfum farið til baka í átt til tekjujafnandi kerfis og fjölþrepatekjuskatts í anda norrænnar jafnaðarstefnu. (Gripið fram í: Einstæðir foreldrar …) Úr því að einstæða foreldra ber á góma vil ég nefna að þeir eru hér enn með hagstæðustu útkomu sambærilegs hóps alls staðar á Norðurlöndum. (Gripið fram í: En versta …) Samt kom hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og kvartaði undan þessu, (Forseti hringir.) og hvað er það sem hækkar þá? Það er útvarpsgjaldið sem hækkar einstæða foreldra, og skyldi ekki hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir velta því aðeins fyrir sér? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Eins …) (Forseti hringir.)

Það er rétt sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir, það þarf auðvitað að taka lífeyrisþáttinn með og ég gerði hér grein fyrir því að þrátt fyrir (Forseti hringir.) að hann sé tekinn með og heildarfleygurinn skoðaður er Ísland áfram (Gripið fram í.) neðan við meðaltal Vestur-Evrópuríkja.

Frú forseti. Ég leyfði mér að fara fram yfir tímann af því að ég fékk ekki frið hérna af því að þetta kemur svo ofsalega við sjálfstæðismenn þegar þeir eru teknir á klofbragði staðreyndanna (Gripið fram í: Að það skuli vera …) og liggja flatir. (Gripið fram í: Að það skuli vera …) (Gripið fram í: Mikil skattbyrði …)