139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[11:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er um að ræða breytingar á lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar sem gefin var í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí sl. Auk þeirra atriða sem beinlínis er að finna í þeirri yfirlýsingu inniheldur frumvarpið nokkrar tillögur um lagabreytingar sem brýnt er að samþykktar verði á vorþinginu.

Ég mun fyrst fara yfir þær tillögur frumvarpsins sem varða yfirlýsingu stjórnvalda tengda kjarasamningum þann 5. maí sl. Þær tillögur varða þrjá meginþætti, þ.e. persónuafslátt einstaklinga, skattlagningu fyrirtækja og tekjuöflun Starfsendurhæfingarsjóðs. Mun ég nú fjalla nánar um hvern þátt fyrir sig.

Í fyrsta lagi ber að nefna persónuafslátt. Kafli II í áðurnefndri yfirlýsingu tekur reyndar bæði til bóta almannatrygginga og persónuafsláttar en frumvarpið hér inniheldur einungis ákvæði um persónuafsláttinn sem er hluti af tekjuskattlagningu einstaklinga. Aðrir þættir koma fram eftir atvikum í öðrum frumvörpum sem hæstv. velferðarráðherra flytur eða í gegnum breytingar sem unnt er að ákveða með reglugerð á grundvelli almannatryggingalaga.

Lagt er til í samræmi við þá yfirlýsingu stjórnvalda að persónuafsláttur taki breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs á undangengnum 12 mánuðum miðað við gildi desembermánaðar og að þetta komi til framkvæmda og gildi frá og með ársbyrjun 2012. Með öðrum orðum er hér verðtrygging persónuafsláttar aftur með ótímabundnum hætti leidd í lög. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 3% á viðmiðunartímabilinu sem þýðir að óbreyttu að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga mundu þá lækka um nálægt 3 milljarða kr. vegna hærri persónuafsláttar á árinu 2012. Það er rétt að vekja athygli á því að hér er að sjálfsögðu verið að tala um tekjuáhrif ársins 2012, en mér hefur sýnst sá misskilningur vera að einhverju leyti í gangi í gær og í dag að þau tekjuáhrif sem þetta frumvarp hafi í för með sér hafi áhrif á tekjur ársins í ár. Svo er að sjálfsögðu ekki, hér erum við að ræða um breytingarnar á nafnverði eins og þær eru metnar í dag miðað við tekjuáætlun fyrir næstu fjárlög.

Í öðru lagi er um að ræða allmiklar breytingar á skattamálum fyrirtækja en um þá var fjallað í kafla III í yfirlýsingunni undir yfirskriftinni „Starfsskilyrði atvinnulífsins“. Þar er líka fjallað um væntanlegar breytingar á tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi, en frumvarp þess efnis verður ekki lagt fram fyrr en á haustþingi, enda munu breytingar sem það felur í sér ekki koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Reyndar má segja hið sama um persónufrádráttinn, það hefði verið nægur tími til stefnu að innleiða verðtryggingu hans á haustþingi en til að sýna að við viljum strax efna þau undirstöðufyrirheit sem gefin eru í tengslum við kjarasamningana er hér lagt til að þessi verðtrygging verði sett inn núna strax í vor.

Fyrsti þátturinn í frumvarpinu snýr að skattlagningu einstaklinga starfandi í eigin félögum. Þar er um að ræða tvenns konar breytingar frá gildandi rétti sem kom til framkvæmda við staðgreiðslu í ársbyrjun 2010. Ákvæðið kveður á um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að úthlutaður arður teljist til launa hjá móttakanda arðsins. Fyrri breytingin felur í sér nánari skilgreiningu á hugtakinu „ráðandi aðili“ þegar ákvörðuð eru laun við eigin atvinnurekstur. Tillagan er sú að maður teljist ráðandi aðili ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% eða meira í viðkomandi lögaðila. Sama regla gildir einnig um starfandi hluthafa óháð fjölskylduböndum. Reglan nær þó einungis til þeirra sem eiga að minnsta kosti 2% í viðkomandi lögaðila. Seinni breytingin er sú að sá hluti úthlutaðs arðs sem telst vera laun verði eingöngu skattlagður í neðsta þrepi tekjuskattsins, þ.e. 24,1% miðað við árið 2010, auk útsvars sem er að hámarki 13,28% það ár, en ekki í þremur þrepum eins og nú gildir. Umræddar breytingar eru til skýringar, einföldunar og fyllingar á gildandi rétti. Ákvæðið felur í sér eftirtalda ívilnandi þætti frá því sem nú er, í fyrsta lagi það að viðmiðið um ráðandi hlut verður 50% eignarhald í lögaðila, í öðru lagi að þeir sem eiga minna en 2% hlut falla utan við regluna og í þriðja lagi er lagt til að skattlagning samkvæmt ákvæðinu verði ávallt í lægsta skattþrepi en ekki stighækkandi eins og nú gildir. Lagt er til að þessi breyting verði afturvirk frá ársbyrjun 2010 og sé þá í raun lögskýring eða nánari útfærsla á þeim rétti sem til staðar er.

Í öðru lagi er fjallað um skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar. Lögð er til sú breyting að frádráttarbærni arðs og söluhagnaðar verði takmörkuð við 5% eignarhald en ekki 10% eins og nú gildir. Jafnframt er lagt til að það skilyrði að yfirfæranlegt tap verði nýtt áður en til frádráttar kemur verði fellt brott. Hér er sömuleiðis komið til móts við sjónarmið sem færð hafa verið fram af aðilum vinnumarkaðarins eða sérstaklega Samtökum atvinnulífsins og Verslunarráði.

Í þriðja lagi er fjallað um afdrátt skatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að ákvæði 8. tölulið 3. gr. tekjuskattslaga, um afdráttarskatt á vaxtagreiðslur til erlendra aðila, taki ekki til vaxta vegna lánasamninga sem gerðir eru við ótengda aðila. Í flestum tilvikum hafa móttakendur vaxtanna geta nýtt sér ákvæði tvísköttunarsamninga til lægri skatts, undanþágu eða endurgreiðslu skattsins, en einhver tilvik eru hins vegar til um það að lántakendur hafi sjálfir þurft að bera afdráttarskattinn vegna ákvæða í lánasamningum. Þá er talin ákveðin hætta á að standi ákvæðið óbreytt þrengi það að lánamöguleikum íslenskra fyrirtækja á erlendum lánamörkuðum þar sem svigrúm er þegar mjög þröngt eins og kunnugt er.

Ég mun leggja til við hv. efnahags- og skattanefnd að gildistaka þessa ákvæðis miðist við 1. janúar 2011 þannig að óbreytt skipan mála standi út þetta ár.

Í fjórða og síðasta lagi varðandi fyrirtækin er fjallað um það sem snýr að mati hlutabréfa við skilgreiningu á gjaldstofni auðlegðarskatts. Samkvæmt gildandi lögum leggst hluti af hinum tímabundna auðlegðarskatti á markaðsvirði hlutabréfa í eigu einstaklinga, eða skattalegt bókfært eigið fé. Þessi skattlagning fer fram eftir á þegar nánari upplýsingar liggja fyrir úr reikningum fyrirtækja. Álagning auðlegðarskatts á einstaklinga hefur því farið fram í tvennu lagi og dreifst á tvö skattár hjá viðkomandi þar sem skattlagning hlutafjár kemur fram á seinna árinu. Ýmis vandkvæði hafa verið uppi um þetta mat og sömuleiðis framangreinda tvískiptingu og því er lagt til að í stað mats á hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé verði tekið mið af stofnverði. Við þessa breytingu fellur seinni hluti skattlagningarinnar niður frá og með árinu 2012.

Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hvaða tekjuáhrif framangreindir fjórir þættir muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Ljóst er að afnám afdráttarskatts á vaxtagreiðslum af erlendum lánasamningum mun hafa umtalsverð bein áhrif til lækkunar en aðrir þættir mun minni og eru heildaráhrifin metin um 2 milljarðar kr. á ári og koma fram á árinu 2012 eins og áður sagði.

Í þriðja lagi er í frumvarpi þessu að finna ákvæði er varða Starfsendurhæfingarsjóð. Kafli VI í yfirlýsingunni fjallar um lífeyrismál, starfsendurhæfingu og húsnæðismál og er því í frumvarpinu að finna breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Þessar breytingar taka að hluta til mið af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð stöðugleikasáttmálans 25. júní 2009 um Starfsendurhæfingarsjóð. Þau fyrirheit voru þríþætt, í fyrsta lagi að lögfesta skyldu launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs samhliða skyldu launþega til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 til 70 ára aldurs, í öðru lagi að lögfesta framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er næmi 0,13% af iðgjaldastofni frá og með 1. júlí 2010 og í þriðja lagi að lögfesta 0,13% framlag ríkissjóðs til Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum frá 5. maí sl. var síðan ítrekað að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því og leggja fyrir Alþingi að lögfest yrði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs. Enn fremur kæmi til jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum. Þá var þar kveðið á um að skipuð yrði samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað yrði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta og að sjálfsögðu yrðu þá prósenturnar eða fjárhæðirnar endurskoðaðar í samræmi við það hverja menn teldu verða raunverulega fjárþörf til þessa verkefnis á komandi árum. Útfæra þyrfti aðkomu ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar tengdri vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Í bráðabirgðaákvæði því sem lagt er til að öðlist gildi þegar í stað og falli úr gildi 1. janúar 2012 er við það miðað að ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála skuli skipa framangreinda samráðsnefnd og hlutverk nefndarinnar verði, auk þess sem að framan greinir, að leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð um VIRK Starfsendurhæfingarsjóð, m.a. um greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit, fyrir sama tímamark, þ.e. 1. nóvember 2011. Við þá vinnu skuli haft samráð við Landssamband lífeyrissjóða og skattyfirvöld.

Í þessu frumvarpi verða lagðar fram breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, í samræmi við gerð stöðugleikasáttmálans frá 25. júní 2009 um Starfsendurhæfingarsjóð en fyrirmæli um sjóðinn eru aftur ítrekuð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí sl. eins og áður sagði. Í frumvarpi fjármálaráðherra verður Starfsendurhæfingarsjóði sem veita á viðtöku iðgjaldi til greiðslu kostnaðar við ráðgjöf, þjónustu og bein úrræði vegna starfsendurhæfingar veitt lagastoð en stór hluti launagreiðenda greiðir þegar 0,13% iðgjald til sjóðsins á grundvelli kjarasamninga. Með lögunum verður kveðið á um skylduframlag lífeyrissjóða til sjóðsins. Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um greiðsluskyldu launagreiðenda í lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Vík ég nú stuttlega að því hvaða áhrif kjarasamningar að þessu leyti muni hafa á afkomu ríkissjóðs. Þó að bein áhrif sé að finna í þessu frumvarpi, samanber þá kostnaðarumsögn sem málinu fylgir, og áætluð neikvæð áhrif fyrir tekjuhlið ríkissjóðs séu um allt að 5 milljarða kr. á árinu 2012 er ljóst að til lengri tíma litið verða heildaráhrif nýgerðra kjarasamninga á afkomu ríkisins bæði jákvæð og neikvæð. Að sjálfsögðu eiga eftir að falla til umtalsverð útgjöld vegna afleiddra áhrifa kjarasamninganna þegar kemur að hækkun bóta í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysisbótakerfinu, og fleiri áform tengd samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem kalla á útgjöld, en að hluta til verður þeim mætt á grundvelli samkomulags sem náðst hefur til dæmis um fjármögnun viðamikilla aðgerða á sviði menntamála. En jákvæð áhrif verða að sjálfsögðu af þessu einnig og til lengri tíma litið umtalsverð. Nýgerðir kjarasamningar eru að sjálfsögðu verðmæt fjárfesting, vonandi í friði og stöðugleika á vinnumarkaði hér til langs tíma, með heilmiklum jákvæðum efnahagslegum áhrifum sem mæta að hluta til íþyngjandi áhrifum þeirra á ríkissjóð, sveitarfélög og að sjálfsögðu atvinnulífið.

Þannig má gera ráð fyrir því að hækkun persónuafsláttar sem hér er lagt til að lögfest verði auki að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna umfram og til viðbótar því sem kjarasamningum fylgir og þar með neyslu í einhverjum mæli sem aftur leiðir til aukinna tekna ríkissjóðs í gegnum óbeina skatta. Léttari skattbyrði fyrirtækja eykur svigrúm þeirra til fjárfestinga og aukinna umsvifa þjóðarbúsins og ekki síst er það jákvætt ef minnkandi atvinnuleysi gerir fært að lækka tryggingagjaldið eða atvinnutryggingaþátt tryggingagjaldsins þó nokkuð strax frá næstu áramótum.

Vík ég þá að öðrum atriðum frumvarpsins sem ekki eru beintengd kjarasamningunum en eru öll þess eðlis að brýnt er að Alþingi afgreiði þau á þessu vorþingi ef samkomulag getur tekist um slíkt. Fyrst ber þar að nefna lagfæringar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í frumvarpinu er lagt til að lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði tímabundin en ekki ótímabundin og er það gert til að mæta sjónarmiðum og til að uppfylla kröfur um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, á styrkjakerfunum. Uppáskrift ESA á fyrirkomulaginu er bundin því skilyrði að um tímabundnar aðgerðir tengdar sérstökum aðstæðum í efnahagsmálum okkar sé að ræða. Engar efnislegar breytingar eru gerðar til á lögunum heldur einungis lagt til að kerfið verði að svo stöddu látið gilda til ársloka 2014, þ.e. í fimm ár samtals.

Í annan stað er um að ræða breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Gerð er tillaga um breytingu á ákvæði er fjallar um rafræna þjónustu og eftirlit vegna áætlana. Ákvæðinu var breytt í upphafi ársins og er nú þannig að rafrænt afhent þjónusta telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð og ber sala á þeirri þjónustu því ekki virðisaukaskatt sé hún seld aðilum sem eru búsettir eða hafa starfsstöð erlendis. Samkvæmt núgildandi ákvæði ber aðila sem kaupir rafrænt afhenta þjónustu að innheimta og skila virðisaukaskatti vegna kaupanna nema hann hafi heimild til að telja virðisaukaskattinn til innskatts. Erfitt er að hafa eftirlit með virðisaukaskattsskilum vegna kaupa á rafrænni þjónustu erlendis frá þar sem viðskiptin, bæði greiðsla og þjónusta, fara fram með rafrænum hætti og því má ætla að ríkissjóður hafi orðið fyrir tapi af þessum sökum. Er því lagt til að gerð verði sú breyting um rafrænt afhenta þjónustu að þegar aðili sem er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis selur þjónustu aðila sem ekki er skráður á virðisaukaskattsskrá og með heimilisfesti eða fasta starfsstöð á Íslandi skuli seljandi skila virðisaukaskattinum í ríkissjóð.

Þá er um að ræða breytingu er varðar frestun á gildistöku tveggja ákvæða er fjalla um rafrænt afhenta þjónustu og innflutning á netþjónum og tengdum búnaði. Þau tilmæli hafa borist frá ESA að láta ákvæðið ekki koma til framkvæmda fyrr en að lokinni athugun af þeirra hálfu um það hvort ákvæðin feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum. Því er lagt til að framkvæmd ákvæðanna verði frestað til 1. október 2011.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbak. Breytingartillögur þessar taka til ákvæða um leyfilegt magn á innfluttu áfengi á lægri gjöldum við komu til landsins. Heimildir ferðamanna til innflutnings á bjór eru auknar og sömuleiðis heimildir flugáhafna. Ljóst er að tekjur Fríhafnar, Isavia, munu aukast eitthvað vegna þessara auknu heimilda en á móti vegur að gera má ráð fyrir að sala ÁTVR á áfengi muni dragast eitthvað saman í kjölfarið og þar með skatttekjur ríkissjóðs í formi vörugjalda af þeim vöruflokki. Nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs verða því væntanlega neikvæð um 100–150 millj. kr. Þess ber að geta að þessar breytingar eru hluti af stærra samhengi, þ.e. því að afslættir á áfengi og tóbaki voru lækkaðir lítillega með breytingum fyrir áramót þannig að í stað 100% endurgreiðslu eða niðurfellingar á áfengis- og tóbaksgjaldi er það, ef ég man rétt, 90% á áfengi og 85% á tóbaki. Sömuleiðis var þjónustusamningur ríkisins við Isavia lækkaður nokkuð og það varð að samkomulagi að í tengslum við þetta yrðu þeir hlutir sem hér eru undir skoðaðir þannig að komið yrði nokkuð til móts við afkomu Fríhafnarinnar í staðinn með breytingum hliðstæðum þeim sem hér eru lagðar til.

Að lokum ber að nefna síðasta stóra efnisatriði frumvarpsins sem er fjármögnun sérstakra vaxtaniðurgreiðslna sem verða við lýði á þessu ári og hinu næsta upp á 6 milljarða kr. eða þar um bil á hvoru árinu um sig. Samkomulag var um það gert í tengslum við skuldaaðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja fyrir áramót að til að létta greiðslubyrði þeirra sem almennt eru með vaxtabyrði vegna lána í þágu húsnæðisöflunar að settir yrðu umtalsverðir fjármunir á árunum 2011 og 2012 í sérstakar viðbótarvaxtaniðurgreiðslur. Þetta þýðir að til vaxtabóta verður varið á þessu ári og hinu næsta yfir 18 milljörðum kr., hátt í þriðjungi af heildargreiðslum heimilanna vegna vaxtakostnaðar íbúðalána. Talið er að hann sé um 60 milljarðar kr. á ári.

Fyrri hluti þessara greiðslna hefur nú þegar farið fram, 30. apríl sl., og þá fengu hátt í 100 þús. aðilar greiðslur upp á rétt tæpa 3 milljarða kr. Það vantaði, ef ég man rétt, nokkur hundruð þúsund krónur upp á að áætlun tekjuskrifstofu fjármálaráðuneytisins stæðist algerlega. Verður það að teljast harla laglega og vel að verki staðið.

Seinni hluti greiðslnanna kemur síðan í ágúst.

Samkomulag var um að bankar og lífeyrissjóðir að uppistöðu til fjármögnuðu þessar sérstöku vaxtaniðurgreiðslur enda er þetta hluti af hinum sérstöku ráðstöfunum í þágu skuldsettra heimila og ætlaði að mæta því sjónarmiði að vitaskuld eru margir með þunga greiðslubyrði vegna íbúðalána sem þó fá ekki úrlausn innan þeirra fjölmörgu útfærðu úrræða sem í boði eru og til þess að að hluta til væri um almennan stuðning að ræða var gripið til þess ráðs að nota það skilvirka tæki sem vaxtabótakerfið er til að mæta þessum hópi. Þessar greiðslur eru án tekjutengingar og skerðast eingöngu við tiltölulega há eignamörk.

Hér er það lagt til að þessar greiðslur verði nú fjármagnaðar þannig að í formi tímabundinnar skattlagningar verði 3,5 milljörðum kr. á þessu ári skipt jafnt, nema þá að menn næðu samkomulagi um einhverja aðra útfærslu, milli viðskiptabanka og lífeyrissjóða. Skattstofn viðskiptabankanna verði sá sami og er að finna í lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, og verður hlutfall þessa tímabundna skatts til að fjármagna vaxtaniðurgreiðslur 0,0795% af þessum skattstofni. Ákvæði um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði verður í bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og verður skattstofninn hreinar eignir samtryggingadeilda til greiðslu lífeyris sem námu nálægt 1.800 milljörðum kr. í lok árs 2010. Samkvæmt því er áætlað að skatthlutfallið 0,0972% dugi til að skaffa fjárhæðina. Áfram verður leitað leiða í samráði við hagsmunaaðila um fjármögnun á þeim 2,5 milljörðum kr. sem vantar upp á 6 milljarða kr. útgjöld ríkisins vegna vaxtaniðurgreiðslunnar á þessu ári og sömuleiðis á 6 milljörðum vegna næsta árs. Því er ekki að leyna að bundnar hafa verið vonir við að ríkinu legðust til nokkrar tekjur í aðgerðum sem tengjast afnámi gjaldeyrishafta og hefur það verið haft í sjónmáli sem fjáröflun í þessu skyni

Ég mun leggja til við hv. efnahags- og skattanefnd að ákvæðum 9. og 16. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að álagning skattsins fari fram á árinu 2012 en upp í þá álagningu verði greidd fyrirframgreiðsla á árinu 2011, 1. nóvember, til að taka af allan vafa um að ekki verði um afturvirkni að ræða, þ.e. að álagningin fari fram á árinu 2012 en fyrirframgreiðsla komi í nóvember á þessu ári þannig að tekjurnar skili sér innan ársins sem útgjöldin falla til á.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari. Ég vek sérstaka athygli á þeim tveimur atriðum sem ég hef í framsögu minni óskað eftir að efnahags- og skattanefnd líti sérstaklega til og er einfaldlega þannig til komið að frumvarp þetta var unnið með miklu hraði, að sjálfsögðu, þegar kjarasamningar lágu fyrir og sérstaklega í tveimur tilvikum höfum við tekið eftir því að yfirfara þarf betur ákveðin atriði og eftir atvikum breyta þeim í samræmi við það sem ég hef reifað hér í framsöguræðu.

Ég vil svo nota tækifærið líka til að þakka efnahags- og skattanefnd, og þinginu öllu reyndar, fyrir það að þegar er búið að lögfesta fyrsta fyrirheitið í sambandi við aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að greiða götu kjarasamninga og það var sú framlenging á gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem varð að lögum hér fyrr í vikunni.