139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé alveg skýrt. Í frumvarpinu erum við eingöngu að tala um tekjuáhrifin vegna þessa frumvarps. Fyrst og fremst er tvennt á ferð sem lækkar tekjur ríkisins á árinu 2012 miðað við forsendur sem fjárlög ársins í ár byggja á, þ.e. gangi forsendan um 3% verðbólgu eftir, 3% hækkun vísitölu neysluverðs milli ára, mun verðtrygging persónufrádráttarins þýða rétt um 3 milljarða tekjutap, miðað við sömu forsendur á þessu ári. Varðandi afdráttarskattinn og aðrar breytingar á skattamálum fyrirtækja er reiknað með að tekjutapið þar nettó sé rétt um 2 milljarðar. Þetta eru allt saman breytingar sem hafa áhrif á tekjur ársins 2012 en ekki ársins 2011.

Það hafa verið samskipti við bæði lífeyrissjóði og banka, bæði ég sjálfur og eins embættismenn í ráðuneytinu vorum í samskiptum við þessa aðila dagana áður en frumvarpið kom fram. Það er ekki um undirritað samkomulag að ræða heldur hafa átt sér stað samskipti og kynning á þessum áformum. Til að koma til móts við sjónarmið lífeyrissjóða og banka er hér valin sú leið að ríkið taki nokkra áhættu af því. Af því þurfa að leggjast til aukalega 2,5 milljarðar í tekjur ef ekki á að verða einhver brestur að því leyti í tekjuöflunarforsendunum. Eins og ég sagði eru þar hafðar í sigti tekjur sem við gerum ráð fyrir að komi til ríkisins í gegnum aðgerðir sem tengjast afnámi gjaldeyrishafta.

Varðandi önnur tekju- og útgjaldaáhrif kjarasamninganna, þar á meðal að sjálfsögðu (Forseti hringir.) launahækkanir, eingreiðslur og annað sem kemur til framkvæmda strax á þessu ári er það allt annað (Forseti hringir.) og stærra mál sem ég þarf meiri tíma til að fara yfir.