139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég fagna því sérstaklega að kjarasamningar skyldu hafa náðst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi síðustu orða hans um að auðvitað þurfi að skoða það nánar þegar búið er að gera samninga á opinbera markaðnum eða við ríkisstarfsmenn, hvort hann telji ekki að gera þurfi nýja áætlun í jöfnun ríkisfjármála og þegar hún liggur fyrir hvort ekki sé þörf á því að kynnt verði sérstaklega fyrir hv. fjárlaganefnd hvernig sú áætlun muni ganga eftir og hvaða hugsanlegar breytingar verða á henni, fyrir utan aðra þætti sem þyrftu að koma til nefndarinnar. Ég vil ítreka við hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að mjög vel þurfi að fara yfir það.

Einnig langar mig að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við þeim varnaðarorðum og athugasemdum sem komu frá Seðlabanka Íslands (Forseti hringir.) um að töluvert vel yrði í lagt og mjög mikilvægt væri að hér mundi hagvöxtur aukast enn frekar.