139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að þetta mun að sjálfsögðu hafa þó nokkur áhrif og strax á þessu ári eða síðari hluta ársins. Þar ber fyrst að telja launahækkanir og aukin útgjöld ríkisins sem launagreiðanda en dýrasti þátturinn verður þó væntanlega áhrifin á bótakerfið og eingreiðslurnar. Þetta leiðir til þess að yfirfara þarf þjóðhagsforsendurnar og endurmeta efnahagsáætlunina til meðallangs tíma, sem hvort sem er var í endurskoðun. En nú þarf að taka mið af þessum breytum. Við bíðum t.d. enn gagna frá Hagstofunni um mat á þjóðhagsáhrifum kjarasamninganna sem skiptir að sjálfsögðu máli þegar hin afleiddu tekjuáhrif eru metin á hina hliðina því sem betur fer eru þetta ekki bara útgjöld fyrir ríkið heldur koma líka til auknar tekjur í einhverjum mæli í gegnum launahækkanir sem auka vonandi einkaneyslu og annað slíkt (Forseti hringir.) og það leggst þá á móti útgjöldunum sem verða þó nokkur.