139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Varðandi persónufrádráttinn er því til að svara að hann var hækkaður umfram verðlag 2010, þ.e. með 2 þúsund krónum, og það ásamt breyttri útfærslu og óbreyttri skattprósentu á lægsta þrepi tryggði hann mjög vel, að minnsta kosti á því ári. Það verður að hafa í huga að búið er að gera þær breytingar á skattkerfinu sem orðið hafa þannig að það er ekki bara persónuafslátturinn einn sem þarna þarf að skoða en auðvitað gefur hann eitthvað eftir miðað við verðlag á þessu ári. Það er út af fyrir sig rétt og ég er ekkert að fela það. Þannig er það.

Áhrifin almennt úti í atvinnulífinu, hver þau verða, er erfitt að meta og við höfum ekki lagt á það mat í fjármálaráðuneytinu enda kannski ekki í okkar færum og við erum ekki með þau gögn í höndum né aðstöðu til þess. Það gerir þá frekar Hagstofan og/eða aðrir aðilar. Hún er nú að reyna að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif kjarasamninganna, gangi þeir eftir og verði að langtímasamningum, og mun síðan láta okkur fá bráðabirgðaniðurstöður úr því til þess að við getum haldið áfram vinnu við endurskoðun efnahags- og ríkisfjármálaáætlunarinnar.

Því er ekki að leyna að þessu er ansi þröngur stakkur skorinn hvað varðar tíma vegna þess hversu dróst á langinn að ná kjarasamningunum og getur orðið erfitt fyrir okkur að ná utan um það allt strax í vor en þeirri vinnu verður þó haldið áfram fram á sumarið enda er hún nauðsynleg í öllu falli vegna undirbúnings fyrir fjárlög næsta árs. Að sjálfsögðu eru þarna tekjuáhrif en ég tek undir það með hv. þingmanni að kjarasamningarnir eins og þeir eru úr garði gerðir — og ánægjulegt að með eingreiðslum og krónutöluhækkunum er komið sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana á vinnumarkaði og það síðan jafnað út í bótakerfin — verða auðvitað íþyngjandi fyrir rekstur á sviði verslunar og (Forseti hringir.) þjónustu þar sem mikið er um slík störf. Hvaða afleiðingar það hefur fyrir rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja verður að koma í ljós, (Forseti hringir.) en ég held að við verðum að vona að jákvæðu áhrifin í hagvaxtarlegu tilliti og á ýmsa fleiri vegu leggist á móti með okkur.