139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta frumvarp er komið fram, í því er margt sem horfir til framfara. Eins og ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal hef ég ýmislegt út á vinnulagið að setja og einstakar greinar frumvarpsins. Í fyrsta lagi höfum við haft mjög lítinn tíma til að kynna okkur frumvarpið sem er nokkuð efnismikið og í öðru lagi hefur stjórnarandstaðan ekki haft neina aðkomu að ákvarðanatöku á fyrri stigum málsins. Ég taldi í ljósi skýrslu þingmannanefndar Alþingis að samþykkt hefði verið 63:0 að við mundum breyta vinnulaginu í þinginu, hefja þingið til vegs og virðingar, en í þessu máli sannast að ekkert hefur breyst. Stjórnarandstöðunni er ekki hleypt að málinu á fyrri stigum málsins sem gerir umræðuna í þingsal náttúrlega allt aðra en ef víðtækt samráð hefði verið haft eins og ríkisstjórnin hefur boðað í svo mörgum málum.

Þetta er svo sem í samræmi við það sem ég nefndi áðan, samráðið sem ríkisstjórnin boðar í mörgum og viðamiklum málum. Sett var á fót mjög stór nefnd til að endurskoða skattkerfi til framtíðar og boðuð víðtæk sátt og að samræðan ætti að vera yfirveguð. Sú nefnd hefur ekki komið saman í átta eða níu mánuði. Allt ber að sama brunni, herra forseti, lítið hefur breyst þegar kemur að verklagi hjá hæstv. ríkisstjórn. Þar ríkir oddvitaræðið. Við sáum í aðdraganda þessa að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra höfðu þar heilmikil áhrif og völd og það var greinilega formsatriði að þingflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna stimpluðu frumvarpið í gegn. Þess vegna upplifir maður það að Alþingi sé hálfgerður stimpilpúði fyrir þetta frumvarp. En ég ætla að rækja starf mitt sem þingmaður með þeim hætti að svo verði ekki. Við munum taka þetta mál til vandaðrar umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd, vegna þess að við þingmenn, allflestir, höfum hvergi komið nærri þessari frumvarpssmíð.

Ég vil fagna því að í tengslum við gerð kjarasamninga hafi náðst fram að persónuafsláttur hækki frá og með næstu áramótum í takt við verðlag og gert er ráð fyrir 3% hækkun á persónuafslætti. Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir lágtekjufólk á vinnumarkaði, þá sem eru á almannatryggingabótum og aðra í samfélaginu. Við afgreiðslu fjárlaga um síðustu áramót var lágtekjufólk nefnilega skilið eftir. Engar hækkanir á til að mynda persónuafslætti fór þá í gegn í nafni þessarar velferðarstjórnar.

Mikilvægt er og í raun mikið fagnaðarefni að þetta skuli hafa verið leiðrétt nú vegna þess að á mörgum stöðum í íslensku samfélagi kreppir að. Við sjáum á nýlegum tölum frá umboðsmanni skuldara hversu gríðarlega mikill vandi er hjá mörgum fjölskyldum í landinu. 2.000 fjölskyldur eru á biðlista eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Hver er afkastageta þeirrar ágætu stofnunar? Það eru 200 mál á mánuði. Á meðan safnast fyrir 200–300 mál í hverjum mánuði. Það er því orðinn ofboðslega langur listi af fólki sem er í miklum erfiðleikum enda vöruðum við við því að ef ríkið ætlaði sér að fara ofan í bókhald hvers einasta heimilis í landinu og fara í sértækar aðgerðir gagnvart hverju og einu heimili yrði það einfaldlega allt of flókið og langdregið ferli. Núna tveimur og hálfu ári eftir hrun stefnir í að endurskipulagning á fjárhag skuldugra heimila og fyrirtækja muni taka mörg, mörg ár til viðbótar. Það er einfaldlega ekki hægt að búa við að þúsundir fjölskyldna standi í þeim sporum.

Hér er minnst á viðbótarlífeyrissparnaðinn og það er staðreynd að margar fjölskyldur hafa komið sér í gegnum síðustu rúm tvö ár sem hafa verið mjög erfið með því að sækja í viðbótarlífeyrissparnað sinn. Nú er komið að ákveðnu sólarlagi þar. Ég geri mér grein fyrir því að vel flestir sem hafa þurft á því úrræði að halda hafa nýtt sér það nú þegar en ég geri ráð fyrir að hundruð fjölskyldna eða jafnvel þúsundir fjölskyldna gætu enn nýtt sér það því við sjáum ekki að störfum sé að fjölga í íslensku samfélagi. Enn er mikill vandi í samfélaginu, vandi sem ríkisstjórnin taldi að yrði kominn í mun betra horf í dag en raunin er. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að framlengja þessa heimild tímabundið um eitt ár a.m.k. þangað til við förum að sjá sólina hærra á lofti í efnahagslegu tilliti. Þó að hæstv. ráðherra telji að margt hafi gengið vel er staðreyndin einfaldlega sú, og ég held að við hæstv. ráðherra getum verið sammála um það, að mikill vandi er á mörgum heimilum og stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma til móts við erfiðleikana sem fólk stendur frammi fyrir.

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að í frumvarpinu eru nokkrar breytingar á skattalögunum eða skattkerfinu. Þar er fyrst og fremst um að ræða leiðréttingar á frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um breytingar á skattkerfinu, sérstaklega haustið eða undir árslok 2009 þegar Alþingi fékk með nokkurra daga fyrirvara frumvarp til breytinga á skattalögum sem við áttum að afgreiða á einungis nokkrum dögum. Hagsmunaaðilar, aðilar vinnumarkaðarins, starfsmenn á skattstofum landsins, endurskoðendur og allir þeir sem hvað best þekktu til vöruðu við mörgum af þeim breytingum sem þá voru gerðar og sögðu að þetta væri allt of stuttur fyrirvari til að gera breytingar á íslenska skattkerfinu. Nú er verið að vinda ofan af þeirri vitleysu sem þá var gerð. Þrátt fyrir fjölmargar umsagnir um að við værum á rangri leið með breytingar á íslenska skattkerfinu setti hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin undir sig hausinn og keyrðu málið í gegn í þinginu.

Hver er niðurstaðan rúmum tveimur árum eftir að þessi lagasetning fór fram? Fjárfesting í íslensku atvinnulífi er í sögulegu lágmarki. Bein erlend fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Það er vegna breytinga á skattkerfinu og misvísandi ummæla innan ríkisstjórnarinnar, m.a. um þjóðnýtingu á náttúruauðlindum. Allt þetta hefur dregið úr tiltrú á íslenskt efnahagslíf. Þar er fyrst og fremst við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana að sakast. Menn horfa á störf þingsins, hvaða frumvörp fara hér í gegn. Fjölmargar skattalagabreytingar hafa farið í gegn á allt of stuttum tíma í algjörri andstöðu við helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. Það hefur leitt til þess að atvinnusköpun hefur ekki verið nægjanleg.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögu í 46 liðum sem verður vonandi dreift í dag, um atvinnumál og hvernig við getum komið hjólum atvinnulífsins af stað að nýju og hætt að horfa upp á þá stöðnun og þann doða sem ríkir í íslensku samfélagi. Ein tillagan er sú að menn setjist niður í alvöru með helstu hagsmunaaðilum og rýni í kosti og galla núverandi skattkerfis vegna þess að við verðum að breyta um kúrs. Reynsla síðustu tveggja ára hefur sýnt okkur að þær breytingar sem ráðist hefur verið í hafa verið afar illa ígrundaðar. Nú er tími til kominn að menn vindi ofan af þeim mistökum.

Í þessu frumvarpi er allt á milli himins og jarðar og mörg óskyld atriði enda er þetta svokallaður bandormur. Þar er m.a. minnst á nýsköpunarfyrirtæki. Ég vil taka sérstaklega undir að við sköpum nýsköpunarfyrirtækjum eða hinum svokallaða hugverkaiðnaði betra rekstrarlegt umhverfi hér á landi, ég tel það nauðsynlegt. Hér á ég við fyrirtæki eins og CCP, Marel, Össur, mörg sprotafyrirtæki sem hafa vaxið með ævintýralegum hraða á undangengnum árum, fyrirtæki þar sem oftar en ekki vinnur ungt, vel menntað fólk sem vill búa hér á landi, fyrirtæki sem eru í mjög mikilli samkeppni við fyrirtæki í öðrum löndum þar sem ríkisstjórnir viðkomandi landa hafa búið þeim mun betra umhverfi en er að finna hér á landi. Þetta er einn af þeim punktum sem við framsóknarmenn leggjum fram sem tillögu í atvinnumálum til að verja þau störf sem eru fyrir, þúsundir starfa í hugverkaiðnaðinum og síðast en ekki síst að sækja fram í þessari mikilvægu atvinnugrein.

Ég vil segja það að lokum að í allri umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum og stöðuna í íslensku samfélagi komumst við alltaf að sömu niðurstöðunni hver lausnin er við þeim vanda sem blasir við okkur, hvort sem það er rekstur ríkissjóðs, fólksfækkun, þ.e. þegar fólk flytur úr landi, eða félagsleg einangrun. Það er að skapa atvinnu, fjölga störfum. Þess vegna eiga menn að leggja ríkari metnað í að hefja alvöru atvinnusköpun. Menn hafa nefnt að 15.000 Íslendingar eru án atvinnu í dag og 5.000 af þeim hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því hvers konar böl atvinnuleysið er. Ég vil tengja langtímaatvinnuleysi og aukningu í örorku saman vegna þess að gríðarleg raun er að lenda í því að hafa ekki atvinnu. Margir hverjir sem lenda í þeim vítahring að hafa ekki atvinnu mánuðum saman eða svo árum skiptir þurfa á endanum að reiða sig á almannatryggingakerfið.

Það er því nú eða aldrei að snúa úr vörn í sókn og tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Eftir að hafa farið vítt og breitt yfir sviðið er snertir tækifæri íslensks atvinnulífs í málefnavinnu fyrir síðasta flokksþing okkar framsóknarmanna höfum við komist að því að framtíðin er björt. Við getum nýtt okkur mörg tækifæri til að sækja fram á velflestum sviðum í íslensku atvinnulífi. Umhverfi sjávarútvegsins hefur sjaldan verið eins gott og nú. Tækifæri landbúnaðarins eru mjög mikil. Ég minni á að matvælaverð á heimsvísu er í hæstu hæðum og skortur er á landi undir þann atvinnuveg. Því er ekki til að dreifa hér. Og ferðaþjónustan; í fyrra komu 500 þúsund ferðamenn til landsins, í ár verða þeir 600 þúsund sem er 20% aukning.

Eins og ég nefndi varðandi hugverkaiðnaðinn hefur sú atvinnugrein verið í örum vexti á undangengnum 10 árum. Ef við sköpum þeirri vaxandi atvinnugrein rétt umhverfi getum við stóreflt atvinnulífið. Þá þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af því að greiða 25 þús. milljónir á ári í atvinnuleysisbætur. Þá þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af því að horfa upp á þá fjölgun öryrkja sem hefur verið á undangengnum árum. Þá hverfa mörg þau samfélagslegu mein sem blasa við okkur í dag.

Þess vegna legg ég til að við förum ítarlega yfir frumvarpið í efnahags- og skattanefnd. Þetta er vandmeðfarið mál. Ég ítreka að margt í því horfir til framfara. Við munum náttúrlega taka því fagnandi. Þau hafa ekki verið svo mörg málin frá ríkisstjórninni sem maður hefur brosað út að eyrum yfir. Hér eru þó atriði sem eru til bóta.

Ég vil að lokum segja að við munum vonandi áður en þing fer heim fá að mæla fyrir atvinnumálatillögum okkar, þingflokkur Framsóknarflokksins, þannig að þær tillögur geti farið í athugun hjá efnahags- og skattanefnd sem mun vísa ákveðnum hlutum tillagnanna til annarra fagnefnda þingsins. Mikilvægast af öllu er að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem eru í boði á Íslandi í dag og tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi.