139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég nefndi áðan er rekstrarumhverfi sjávarútvegsins mjög gott ef við horfum bara á stöðu á mörkuðum og hvernig gengi gjaldmiðilsins okkar er. Ég held að við breytum því ekki þrátt fyrir þetta frumvarp. Ef menn fara hins vegar í óvarlegar breytingar á kvótakerfinu eru þúsundir starfa í húfi á sjó og á landi, ekki bara í frystihúsunum eða á togurunum heldur hjá þeim hundruð fyrirtækjum sem þjónusta þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Ég er mjög hlynntur því að við festum það ákvæði í stjórnarskrá að þessi auðlind sé í eigu þjóðarinnar og að þjóðin fái sanngjarna rentu af mikilvægustu auðlind okkar. Þá verðum við að tryggja að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og það umhverfi sem við ætlum að skapa honum samkvæmt lögum sé með þeim hætti að sjávarútvegurinn geti greitt fjármuni vegna afnota sinna af þessari sameiginlegu auðlind.

Það er allra hagur að farið verði yfir þessi mál af mikilli yfirvegun án þess að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar. Við framsóknarmenn erum reiðubúnir að taka þátt í þeirri vinnu. Hún er mjög mikilvæg. Eins og ég sagði áðan er þetta ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar sem skiptir ríkissjóð og rekstur þessa sameiginlega sjóðs allra landsmanna gríðarlega miklu máli. Vonandi náum við sátt um það hvernig við viljum haga fiskveiðistjórnarkerfinu til framtíðar, en við hljótum að hafna kollsteypum í kerfinu sem leiða til þess að hundruð eða þúsundir manna missi lífsafkomu sína. Nógu slæmt er ástandið fyrir.