139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get nú svona rétt í upphafi tekið undir með nöfnu minni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, um það að það væri óskandi að þegar aðilar á einkamarkaði gerðu kjarasamninga að ríkið þyrfti ekki að koma að því. Það er markmið sem ég held að við getum öll tekið undir. Þó verð ég að segja að í þessu tilfelli, þegar þessir kjarasamningar eru gerðir, held ég að það sem vakir fyrst og fremst fyrir aðilum vinnumarkaðarins, í kröfum þeirra á hendur ríkisvaldinu, sé að skapaður verði stöðugleiki. Stöðugleiki í rekstrarformi, stöðug rekstrarskilyrði fyrirtækjanna, þannig að aðilar á hinum almenna vinnumarkaði geti skuldbundið sig til að greiða laun, gera lengri kjarasamninga, sem koma okkur öllum, hvort sem við erum ríkisstarfsmenn eða almennir launþegar, til góða. Ég vildi hafa þennan fyrirvara á í ljósi ummæla nöfnu minnar.

Þetta er, eins og hér hefur komið fram, frumvarp sem er í tengslum við gerð kjarasamninganna, en þó eru hér nokkur atriði líka sem snerta þá samninga ekki með beinum hætti ef nokkuð. Ég verð að gagnrýna það að nú hafa þessir kjarasamningar legið fyrir um nokkra hríð, en þetta er eins og annað frá þessari blessaðri ríkisstjórn að frumvarpinu er dreift hér seinni partinn í gær og tekið inn með afbrigðum í dag og við höfum haft afskaplega lítinn tíma til að kynna okkur málið. Og þetta eru flókin mál. Öll þessi skattamál eru mjög flókin og maður þarf að leggjast yfir þau til að átta sig á heildarsamhenginu.

Mig langar að fjalla hér um tvo þætti. Ágætlega hefur verið farið yfir, af félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, atriðin er varða kjarasamningana og lífeyrismálin. Mig langaði í upphafi, af því að hæstv. fjármálaráðherra er því nú ekkert sérstaklega vanur að ég sé að skjalla hann mikið eða hrósa úr þessum ræðustól — og ég sé hann fölna hér upp — að byrja á að þakka honum fyrir að bregðast svo hratt og örugglega við nýlegri fyrirspurn minni um afdráttarskatta og vexti, svo að ég setji þetta kannski í svolítið undarlegt samhengi, þetta var óbein tenging eins og ég sagði. Ég spurði einmitt um þennan skattstofn og hvort íslensk fyrirtæki hafi lent í vandræðum vegna þeirrar skattlagningar og hvort borist hafi kvartanir vegna hennar. Hann svarar því til að ráðuneytinu hafi borist einhverjar athugasemdir eins og gengur og einhverjir hafi lent í vandræðum, en nokkrum dögum seinna tekur hann sig til og afnemur þetta ákvæði. Þannig að ég þakka bara pent fyrir. Þetta hefur vonandi góð áhrif á þá starfsemi sem um ræðir.

Mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, endurtaka kannski eða ítreka spurningu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um 10. gr., hvaða áhrif þetta hefur á gagnaver, hvað verið er að fá fram með þessari breytingu. Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í 11. gr., þar er verið að fresta ákvæði sem við lögfestum í desember síðastliðnum og kom til framkvæmda 1. maí, ákvæði sem varðar rafrænt afhenta þjónustu og innflutning á netþjónum og tengdum búnaði og það að hann var undanþeginn virðisaukaskatti frá 1. maí 2011. Þetta snertir einmitt gagnaverið líka. Eins og við vitum var talsverð mótstaða í fjármálaráðuneytinu við að koma þessu lagaákvæði á laggirnar. Til að rifja það upp var það nýr meiri hluti sem myndaðist hér á Alþingi og í hv. iðnaðarnefnd sem náði að knýja þetta ákvæði fram, sem við fögnuðum mjög á sínum tíma, og átti það að greiða fyrir því að hægt væri að setja á fót hin margumræddu gagnaver sem eru eitt af þeim fjölmörgu atvinnutækifærum sem mörg okkar telja að bíði hér algjörlega að tilefnislausu eftir því að komast af stað.

Í athugasemdum við 11. gr. segir, með leyfi forseta:

„ESA hefur ekki svarað því með formlegum hætti hvort um ólögmæta ríkisaðstoð sé að ræða en hefur í samskiptum við fjármálaráðuneytið gefið til kynna að miklir möguleikar séu á að svo sé. ESA hefur því ráðlagt stjórnvöldum að láta lögin ekki koma til framkvæmda fyrr en niðurstaða liggur fyrir hvort um ólögmæta ríkisaðstoð sé að ræða.“

Ég vil því biðja hæstv. fjármálaráðherra að fara yfir þetta og biðst velvirðingar ef hann hefur gert það í framsöguræðu sinni, sem ég hafði því miður ekki tök á að hlusta á. Ég bið hann þá að endurtaka það ef svo er.

Fyrst ég er byrjuð að tala um gagnaverin vildi ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því sem enn stóð út af þegar þetta var komið, og það sneri að túlkun ríkisskattstjóra á heimilisfesti viðskiptavina gagnaveranna og skattgreiðslu þeirra. Ríkisskattstjóri vildi meina að viðskiptavinir gagnaveranna þyrftu að hafa starfsstöð á Íslandi og bæri því að borga virðisaukaskatt hér. Það hefur verið ágreiningur um þá túlkun. Hvar er það mál statt? Hefur eitthvað þokast áfram í því? Er einhvers að vænta, einhverra frétta, varðandi þessi gagnaversmál sem gæti glatt okkur og orðið til þess að vekja okkur von um það að þessi starfsemi færi að komast af stað hérna? Við bíðum öll með mikilli óþreyju eftir því.

Ég vildi líka spyrja — það er kannski svona lagapraktískt — um ákvæðið sem tók gildi 1. maí. Nú er 19. maí., hvers konar áhrif getur það haft þegar verið er að fresta því? Er það farið að nýtast einhverjum fyrirtækjum sem treystu á gildandi lög? Mun þetta hafa einhver áhrif á fyrirtæki sem eru byrjuð í þessum rekstri, eða eru þau enn að bíða eftir heildarúrlausn þessara mála?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en ítreka að það hefði verið gott að geta haft meiri tíma til að skoða frumvarpið fyrir 1. umr. Þarna er fullt af atriðum sem eflaust þarfnast frekari skoðunar sem verður vandleg og ítarleg í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Við tökum þá frekari umræðu um þetta við 2. umr. um málið.