139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu og ætla bregðast við nokkrum atriðum og reyna að svara spurningum sem til mín var beint. Ætli ég byrji ekki á því síðasta frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem af glöggskyggni sinni tók eftir því að það er rétt að það er verið að rýmka aðeins reglur um magn sem heimilt er að flytja inn tollfrjálst í gegnum fríhöfn við komu til landsins. Það er tvíþætt, annars vegar er skammturinn af öli stækkaður nokkuð og hins vegar er breytt reglum um það magn sem áhafnir, sem eru háðar sérstökum reglum vegna þess hve oft þær fara inn og út úr landinu, mega taka af sterku áfengi. Skýringin á því er sem slíkt aðallega tæknilegs eðlis, þ.e. að þetta hefur verið bundið við 375 cl af sterku áfengi fyrir áhafnir sem hafa ekki verið lengur en 12 daga í burtu eða fara oftar til og frá landinu en á 12 daga fresti. Það er fremur ópraktískt því að það er lítið um sterka drykki í slíkum pakkningum en hins vegar er talsvert meira úrval af hálfs lítra pakkningum þannig að ákveðið var að hækka skammtinn í hálfan lítra.

Þetta er reyndar, eins og ég held að ég hafi látið koma aðeins fram í andsvari við byrjun umræðunnar, sú rýmkun sem þarna er á ferðinni er að hluta til sprottin upp úr samskiptum við Fríhöfnina og Isavia tengt breytingum sem urðu um síðustu áramót þegar dregið var aðeins úr fullri niðurfellingu eða endurgreiðslu áfengis- og tóbaksgjalds og reyndar gerð líka breyting á þjónustusamningi ríkisins við Isavia. Þá var gefið fyrirheit um að farið yrði yfir mál og skoðað hvort á móti kæmi einhver rýmkun á þessum reglum sem Fríhöfnin hefur óskað eftir. Hér eru tekin ákveðin skref í þeim efnum, að mínu mati tiltölulega hófsamleg. Málið er reyndar áfram til skoðunar þannig að hér eru tekin ákveðin skref. Þessir skammtar eru almennt mun lægri á Íslandi en þeir eru orðnir í löndunum í kringum okkur, en það hefur vissulega þau áhrif að það má reikna með það að dragi eitthvað úr sölu og þar með tekjum hjá Áfengisverslun ríkisins á móti og við sjáum auðvitað alltaf eftir aurunum í fjármálaráðuneytinu.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, reið á vaðið og það er kannski tvennt eða þrennt sem ég vil bregðast við varðandi það sem hann ræddi. Ég er honum sammála um að það verður að vega og meta mjög margt saman og heildaráhrifin af kjarasamningunum, verði þeir til langs tíma og nái yfir allan vinnumarkaðinn með eitthvað svipuðum hætti og nú hefur teiknast til á almennum vinnumarkaði, og reyndar hafa nokkrir allfjölmennir hópar samið á svipuðum nótum eftir að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu sinn samning eða aðildarfélögin þar, þ.e. bankamenn og grunnskólakennarar og fleiri hópar eru vonandi nálægt því að fara að ná samningum. Og það er að sjálfsögðu á útgjaldahliðina fyrir launagreiðendur launahækkanirnar og það hefur sín áhrif á stöðu ríkis og sveitarfélaga og auðvitað atvinnulífið. Ríkið er að því leyti í sérstöðu meðal þessara aðila að niðurstöður kjarasamninga leiða til umtalsverðra afleiddra áhrifa í bótakerfunum og reyndar víðar sem hafa útgjöld í för með sér. Á móti kemur það að sjálfsögðu að kjör taka að batna, að þetta ætti að leiða til aukinnar veltu og umsvifa í hagkerfinu og skila sér þar með í nokkrum tekjuauka á móti, bæði til ríkis og sveitarfélaga, en mest er þó undir í því að almennt nýtist þetta sem góð viðspyrna í uppsveiflu í hagkerfinu. Það má segja að hér séu allir að veðja með talsverðum hætti á framtíðina að okkur takist sameiginlega að breyta nú stemningunni og ná í gang aukinni fjárfestingu, aukinni bjartsýni, aukinni trú á hagkerfið og um leið og það kemur spái ég því að miklir kraftar muni leysast úr læðingi. Þannig er það jafnan þegar fólk fer að trúa því og sjá það að betur er farið að horfa og þá verði meiri viðsnúningur líka af þeim sökum.

Um aðgerðir ríkisins að þessu leyti sem vissulega munu setja ákveðið strik í reikninginn í sambandi við áætlun okkar til meðallangs tíma um að ná jöfnuði innan tiltekinna tímamarka. Það verður að sjálfsögðu að fara rækilega yfir það. Þá má færa a.m.k. tvennt til að mínu mati. Annars vegar þá miklu fjárfestingu sem auðvitað er í stöðugleika og friði á vinnumarkaði og enginn skyldi gera lítið úr ef okkur er að auðnast að leysa þau mál með ábyrgum og að mínu mati viðráðanlegum hætti, þó að vissulega muni það taka í einkum fyrir tvo aðila, þ.e. ríkið sjálft og þær atvinnugreinar þar sem mikið er um fólk á tiltölulega lágum launum hverra kjör batna núna og þá hlutfallslega meira í gegnum eingreiðslur og krónutöluhækkanir. Það eru gjarnan greinar innan viðskipta og þjónustu sem ekki eru kannski í eins sterkri samkeppnisstöðu og útflutnings- og samkeppnisgreinar, þannig að auðvitað verður að hafa það í huga og sjálfsagt mun það taka í hjá mörgum.

Varðandi annað atriði sem hv. þingmaður nefndi þá snýr það að þeim breytingum sem hér er verið að gera á fyrirkomulagi útgreiðslu arðs úr einkahlutafélögum og þess þáttar sem mönnum er gert að reikna sér sem laun innan tiltekinna marka. Hér er verið að gera vissar breytingar og skýra betur hvernig túlka beri það sem gert var 2009. Það er mikill misskilningur að það sé verið að draga það allt til baka eða viðurkenna að þar hafi verið gerð mistök. Það voru það sannarlega ekki, því að það var óumflýjanlegt að taka á því hvernig þau mál höfðu þróast. Það var augljóst mál að menn voru í allt of miklum mæli að greiða sér í raun laun sem arð og það voru ekki síst sveitarfélögin sem voru þolendur þeirrar þróunar að sjálfstætt starfandi aðilar, einyrkjar og aðilar, færðu rekstur sinn yfir í einkahlutafélög og útsvarstekjurnar gufuðu upp. Það varð að setja þarna skorður og það var gert. Hér er verið að gera vissar breytingar og skýra betur réttinn sem þarna eigi við. Þær eru vissulega ívilnandi, það er rétt, og þær eru til slökunar á vissum greinum.

Það atriði sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um, hvers vegna hér sé valin sú leið að skattleggja þann hluta arðsins, sem mönnum er þá gert að reikna sér sem launatekjur, allan á lægsta þrepi. Skýringin er kannski þríþætt. Í fyrsta lagi er það til einföldunar, að það kemur þá bara ein skattprósenta á þá upphæð og það þarf ekki að reikna það yfir í þrepaskiptan tekjuskatt. Það er vissulega aðeins ívilnandi. Í þriðja lagi er minni munur á prósentunum, 20% skatti á arð og þeim 37% eða hvað það nú er rúmlega þegar 24,1% tekjuskattur og fullt útsvar reiknast á hina hliðina. Þar af leiðandi er það kannski ekki eins viðkvæmt nákvæmlega hvernig þetta er skilgreint milli arðs og launa. Ef þetta væri allt upp í 10% hærri skattprósenta er þar auðvitað orðið mun meira bil á milli og þar af leiðandi kannski eðlilegt að menn yrðu viðkvæmari fyrir því, því að auðvitað er hér ekki um einhver einhlít nákvæmnisvísindi að ræða þegar þessar reglur eru settar inn takmarkandi til að sporna við því að menn í allt of miklum mæli geti í raun og veru greitt sér laun en skattalega talið það fram sem arð.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ræddi nokkuð um fyrirkomulag skattlagningar á lífeyrissjóði eða greiðslna lífeyrissjóðs og fleiri hv. þingmenn komu inn á það atriði. Ég ætla að fara aðeins yfir það. Það er annars vegar um að ræða þátttöku lífeyrissjóðanna í kostnaði við starfsendurhæfingu, þessi 0,13% af iðgjaldsstofni sem nú er gert ráð fyrir eða 1/3 af einhverri tiltekinni fjárhæð í framtíðinni sem nú er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir komi með. Hér er að sjálfsögðu um skattfrjálst iðgjald að ræða og það er ekki um skatt á því stigi að ræða. Hér er um að ræða þátttöku lífeyrissjóðanna í fyrirbyggjandi aðgerðum í gegnum starfsendurhæfingu til þess að koma í veg fyrir örorkubyrði síðar. Það hlýtur auðvitað að vera hinn lagalegi grunnur sem þetta hvílir á og þátttaka lífeyrissjóðanna byggir á. Hér er um að ræða samkomulag aðila vinnumarkaðarins um átak í starfsendurhæfingu sem er orðið nokkurra ára gamalt og er að byrja að koma til framkvæmda í áföngum í gegnum VIRK Starfsendurhæfingarsjóð og það eru að sjálfsögðu fyrir því ýmis gild rök að lífeyrissjóðir leggi sitt af mörkum í þessum efnum.

Nákvæmlega sama gildir um þá greiðslu frá lífeyrissjóðunum sem hér á að koma til sérstakra vaxtaniðurgreiðslna. Lífeyrissjóðirnir tóku þátt í skuldasamkomulaginu í desember fyrir sitt leyti á 110% niðurfærslunni. Þeir gera það á þeim grunni að með því komi þeir til móts við stóran hóp viðskiptamanna sinna, þeirra sem tekið hafa sjóðfélagalán til að fjárfesta í húsnæði og eru í erfiðleikum. Eignasafn þeirra batnar og endurheimtumöguleikar aukast ef tekst að vinna úr skuldum þessa fólks þannig að það ráði við greiðslurnar. Í sama anda verður að hugsa þátttöku þeirra banka og lífeyrissjóða í hinum sérstöku vaxtaniðurgreiðslum vegna þess að þær eru hinn almenni þáttur aðgerðanna, til að hjálpa almennt þeim sem eru þarna með þunga greiðslubyrði. Ég tel að í báðum tilvikum standist það alveg lagalega að lífeyrissjóðirnir komi að þessum aðgerðum. Í tilviki vaxtaniðurgreiðslnanna eru þær algerlega tímabundnar í tvö ár. Hér er eingöngu gengið frá fyrirkomulaginu fyrir yfirstandandi ár með þeim hætti að lagastoð sé fyrir greiðslum lífeyrissjóðanna að því leyti sem þeir eru þátttakendur í þessu. Ríkið hefur hér, þrátt fyrir samkomulagið um að lífeyrissjóðir og bankar legðu fram þetta fjármagn, ákveðið að taka á sig drjúgan hluta byrðanna út á tekjur sem við væntum að okkur leggist til með öðrum hætti.

Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áhyggjur sínar af því að fyrirtækin mundu ekki ráða við launahækkanirnar og hann nefndi þetta sama með arð og laun sem ég hef þegar svarað.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spurði um útgreiðslur séreignarsparnaðar og sólarlagið sem var á rétti manna til að sækja um þær útgreiðslur núna 1. apríl. Það er hárrétt, það hafa komið fram býsna margar óskir um að þetta verði framlengt. Það hefur komið í ljós að þrátt fyrir rækilega kynningu og að menn töldu að allir hefðu átt að vita að umsóknarfresturinn rynni þarna út, hafa býsna margir ekki náð að koma inn umsókn fyrir þann tíma. Til dæmis hafa einstaklingar sem hafa verið að flytja frá útlöndum til Íslands og hafa verið að festa sér hér húsnæði og ætluðu að nota hluta séreignarsparnaðar síns í þetta, komið að máli og bent á að þeim hafi ekki verið ljós þessi frestur sökum búsetu sinnar erlendis og það hafi svo runnið upp fyrir þeim þegar þeir komu heim að þetta væri útrunnið. Af þeim sökum er það til skoðunar að framlengja þetta út árið eða gefa a.m.k. aftur einhvern glugga fyrir þá sem misstu þarna af lestinni. Það er held ég sanngjarnt. Við höfum rætt við vörsluaðilana og þeir telja að framkvæmdin gangi vel og það sé ekkert því til fyrirstöðu að framlengja þetta og ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði gert og hugsanlega leitað eftir samstarfi við hv. þingnefnd um að taka það inn sem breytingartillögu við frumvarp sem þegar er opið fyrir þinginu.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir ræddi um atvinnutryggingagjaldið og áformin um lækkun þess sem vissulega er ekki inni í þessu frumvarpi heldur koma í frumvarpi í haust. Svarið er auðvitað að sjálfsögðu jú, lækkun atvinnutryggingaþáttarins í tryggingagjaldinu kemur að sjálfsögðu öllum launagreiðendum í landinu til góða, líka ríki og sveitarfélögum og almenna vinnumarkaðnum. Það er þó ánægjulegt að horfur varðandi spár um atvinnuleysi virðast ganga eftir miðað við lækkun atvinnuleysis núna milli mars og apríl upp á um hálft prósentustig. Þar af leiðandi erum við bjartsýn á að þær áætlanir sem byggt var á þegar lagðar voru línur um lækkun atvinnutryggingagjaldsins á gildistíma kjarasamninganna gangi í aðalatriðum eftir. Það þýðir að talsverð lækkun, fyrsta skrefið í þeirri lækkun á að geta komið til framkvæmda um næstu áramót. Að sjálfsögðu verður það fagnaðarefni ef hægt verður að draga úr þessari íþyngjandi gjaldtöku sem auðvitað er þung og er launatengdur kostnaður sem ekki er æskilegt að þurfa að hafa mjög háan á tímum atvinnuleysis.

Varðandi virðisaukaskatt og rafræna þjónustu sem nokkrir þingmenn hafa spurt um þá er það annars vegar tæknilegs eðlis, hins vegar er um að ræða frestun á lagaákvæðum sem tóku gildi núna 1. maí. Þau hafa ekki verið virk því að við höfum ekki gefið út reglugerð. Það eru eindregin ráð allra lögfræðinga og sérfræðinga að fara að tilmælum ESA. Það auki frekar líkurnar á að við fáum þar hagstæða niðurstöðu heldur en hitt. Það að fara í blóra við þau tilmæli væri ekki gott veganesti í glímunni við þá um að fá þá til að fallast á frambúðargildi þessara laga. Nú stendur sú viðureign yfir og verður fram undir haustið þannig að gildistökunni verður frestað þangað til og þar af leiðandi hafa engin fyrirtæki nýtt sér þessi ákvæði enn þá og kemur náttúrlega ekki mjög á óvart, alla vega í fjármálaráðuneytinu, að farið hafi verið tæpt á brúnina með þessi ákvæði. Það voru þær áhyggjur sem við höfðum og hefur nú sannast að það kann svo að fara að reynist ekki einfalt mál að fá ESA til að (Forseti hringir.) samþykkja að þetta standi.