139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta með virðisaukaskattinn og skattalega meðferð rafrænnar þjónustu þá gáfum við út um það alveg skýr fyrirheit að við vildum gera jafna samkeppnisstöðu þeirrar starfsemi hér við það sem best gerðist í Evrópu. Við það höfum við reynt að standa. Við sögðum hins vegar að við vildum stíga varlega til jarðar þannig að við göngum ekki of langt og fáum það í bakið. Við höfðum af því áhyggjur að í vissum tilvikum kynnu menn að vera að gera það. Nú skulum við vona hið besta. Ég ætla ekki að fara að tala hér eins og ég vilji að við töpum þessu. Úr því að það er vilji löggjafans að ganga þetta langt skulum við vona að okkur takist að fá samþykki fyrir því en það er ekki í höfn.

Ég hygg að það sem ESA setji ekki síst hornin í sé innflutningur á búnaði í eigu erlendra aðila til vistunar og hýsingar hér og að felldur verði niður allur virðisaukaskattur af þeim búnaði þó svo að viðkomandi aðili hafi hér enga starfsemi og ekki starfsstöð. Um leið og menn velja þá leið að skrá hér starfsstöð leysast öll þessi mál af sjálfu sér því að þá falla þeir undir venjulegar reglur um innskatt og útskatt. Á það höfum við bent og sem betur fer hefur a.m.k. einn ef ekki tveir stórir viðskiptavinir gagnavera þegar farið þá leið af því að þeir sjá að hún er einföldust.

Leiðirnar sem til greina komu voru að okkar mati tvær. Annars vegar að veita tímabundna aðlögun til að menn kæmu viðskiptunum af stað og gætu látið á það reyna hvort þau gengju vel, en eftir að viðskiptin hefðu staðið í tiltekinn tíma og/eða náð tilteknum umsvifum yrði mönnum gert að skrá hér starfsstöð. Eða eins og þingið valdi, að leggja upp með ótímabundna niðurfellingu eða ótímabundið skattfrelsi að þessu leyti sem er óhefðbundið í samskiptum ríkja. Það verður að segjast að það stríðir meira og minna gegn anda allra tvísköttunarsamninga að ganga svo langt og það er það sem við höfum áhyggjur af, að þetta teljist ganga of langt (Forseti hringir.) miðað við hefðbundin samskipti ríkja að því leyti að almennt séu umsvif í hverju landi fyrir sig skattandlag þar.