139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[15:51]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á barnaverndarlögum sem voru endurskoðuð algjörlega árið 2002. Ég vil þakka félögum mínum í hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir frábært samstarf. Það er gott þegar hægt er að vinna að jafnmikilvægu máli og barnaverndarmál eru af slíkum einhug eins og gert var í þessu máli sem við höfum haft meira og minna til umfjöllunar frá því í haust. Varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, reifaði málið mjög vel og fór yfir öll helstu atriði þannig að ég ætla að leyfa mér að taka úr örfá atriði sem vakið hafa sérstaka athygli og fara yfir þau.

Í upphafi langar mig til að minna á hver tilgangur barnaverndarlaga er en hann er að vernda öll börn af því að þau eiga rétt á vernd og umönnun og þau eiga að njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Þetta þurfum við alltaf að hafa í huga þegar rætt er um barnavernd.

Mig langar að minnast á þau nýmæli sem koma fyrir í frumvarpinu því að þau skipta öll mjög miklu máli og hafa mörg hver ákveðna stefnubreytingu í för með sér. Í þessum nýju lögum er afmarkað hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til kærunefndar. Einnig má nefna lögsögu barnaverndarnefnda í málum barna sem ekki eiga lögheimili á Íslandi, það er algjört nýmæli að þau mál séu rædd yfir höfuð. Breytingar eru gerðar á ákvæðinu um tilkynningarskyldu og fjallað er skýrar um tilkynningarskyldu vegna þungaðra kvenna. Fjallað er um samstarf barnaverndarnefnda og þeirra sem starfa með börnum sem skiptir þá aðila sem starfa með börnum dagsdaglega mjög miklu máli. Hér eru einnig ýmis nýmæli sem skýra og bæta réttarstöðu barna. Eitt atriði finnst mér skipta mjög miklu máli, það er að nú er skylda að kveðja til sérfróða meðdómsmenn þegar málefni barna koma fyrir dómstóla. Einnig er komið inn á réttarstöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá og réttarstöðu fósturforeldra og heilmikið er fjallað um kostnað vegna skólagöngu barna sem ráðstafað er tímabundið í fóstur í annað sveitarfélag. Hér má finna nýmæli um afmörkun og skiptingu kostnaðar vegna vistunar barna utan heimilis og lagðar til ýmsar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega þegar kemur að ábyrgð og uppbyggingu úrræða fyrir börn.

Svo eru hér örfá atriði sem mig langar til ræða. Fyrst vil ég ræða að í nefndinni og í umsögnum margra aðila sem vildu gjarnan hafa eitthvað um frumvarpið að segja var mikið talað um vanrækslu og að við ættum að gera meira úr henni í frumvarpinu og skilgreina hana og gera sérstaklega mikið mál úr því. Við kynntum okkur þetta mjög vel en þegar við fórum að skoða málið betur kom í ljós að vanræksla rúmast í raun og veru mjög vel innan þeirra skilgreininga sem fyrir eru í frumvarpinu. Þar er vanræksla skilgreind sem sérstakur flokkur sem síðan skiptist nánar niður. Við teljum að ekki þurfi að breyta frumvarpinu frekar því að þetta kemur í raun og veru mjög vel fram í því. Oft á tíðum er dálítið erfitt að meta vanrækslu og það verðum við sífellt að hafa í huga þegar um barnavernd er að ræða.

Þá langar mig til að tala sérstaklega um fötluð börn og vernd þeirra. Ég verð að viðurkenna að það kom mér mjög á óvart að núna virðast ekki gilda sömu ákvæði um t.d. leyfisveitingu til heimila sem taka við fötluðum börnum og þeirra sem taka við ófötluðum börnum. Við verðum að hafa í huga að barnaverndarlög eru að sjálfsögðu til verndar öllum börnum, sama hvernig þroska þeirra er háttað og með lögunum er fötluðum börnum veitt sama lagavernd og öðrum og þau úrræði sem heyra undir lögin eru eðli málsins samkvæmt úrræði vegna barnaverndar, t.d. vegna fósturvistunar og meðferðar barns. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þetta á að sjálfsögðu við bæði fötluð og ófötluð börn. Í málum sem þessum er gripið til úrræða á grundvelli barnaverndarlaga og að sjálfsögðu eiga að gilda nákvæmlega sömu reglur um þau úrræði sem fötluðum börnum eru veitt og þeim sem eru ófötluð. Þarna þurfum við að grípa inn í.

Fötluð börn eiga að sjálfsögðu að njóta sömu verndar og önnur börn ef þau fara í sumarbúðir eða á sumardvalarheimili og ef rekin eru heimili sem falla undir 91. gr. laganna en eru sniðin að sérþörfum barns eða barns með sérstakar þarfir eða fjölþættan vanda verður að sjálfsögðu að tryggja að um starfsemina gildi ekki vægari kröfur og með henni sé haft jafnöflugt eftirlit og með öðrum heimilum sem falla undir 91. gr. Í raun og veru held ég að það hafi komið okkur öllum talsvert á óvart að raunin væri sú að eftirlitið með þessum stofnunum sem sérstaklega eru starfrækt fyrir börn með miklar sérþarfir sé minna, í raun og veru finnst manni að eftirlitið ætti að vera meira. Hvað þetta atriði varðar er ég mjög ánægð með vinnu nefndarinnar.

Mig langar að reifa tvö mál til viðbótar. Annað er skólamál barna í tímabundnu fóstri utan lögheimilissveitarfélags. Staðan hefur verið þannig að lögheimilissveitarfélag hefur greitt allan kostnað af skólavist barns, kannski burt séð frá því hvort eiginlegur kostnaðarauki hafi orðið. Í frumvarpinu eins og það lá fyrir í upphafi var gert ráð fyrir að þessu yrði breytt þannig að kostnaður af almennri skólagöngu félli á viðtökusveitarfélagið og lögheimilissveitarfélagið sæi um að greiða fyrir sértækari þjónustu. Ég held að það hafi verið ágætis ráðstöfun hjá nefndinni að vísa þessu yfir til menntamálanefndar sem hefur nú til umfjöllunar breytingar á grunnskólalögunum. Það verður að segjast að þetta mál er mjög flókið ýmissa hluta vegna, það er mjög algengt að börn séu send í fóstur í minni sveitarfélög á landsbyggðinni og það er kannski talsvert meiri breyting fyrir lítinn skóla en stóran að fá nýjan nemanda. Oftast er það þó þannig að mannauðurinn eflist og það er bara til bóta. En auðvitað verður að vera til staðar sú þekking í faghópi skólans að hann geti tekið við þessum nemanda og veitt honum þá þjónustu og menntun sem hann þarf á að halda.

Þetta er ekki að öllu leyti einfalt mál og að ýmsu að hyggja, þetta snýst ekki bara um greiðsluna heldur líka að skoða þarf vel áður en barn er vistað utan heimilis síns hvort viðkomandi skóli sé ekki örugglega tilbúinn til að taka við barninu og þar fari fram sú undirbúningsvinna sem nauðsynleg er. Því miður er það náttúrlega oft þannig að um hálfgert neyðarúrræði er að ræða og gerist oft á tíðum mjög snöggt og undirbúningur getur þess vegna ekki verið eins góður og hann þyrfti að vera. Ef undirbúningur getur ekki farið fram verður að vinna vinnuna eftir á þannig að einhvers konar viðtökuáætlun eða eitthvað í þeim dúr verður að sjálfsögðu að vera til. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að öll börn eru mikils virði og að nýtt barn í hverju skólahverfi á að vera góð viðbót við skólaflóruna. Með réttum undirbúningi og réttri meðferð má vinna málið þannig, að mínu mati.

Síðan langar mig að lokum að taka fyrir vistun barna á meðferðarheimilum. Á undanförnum missirum hefur mikið verið rætt um málefni meðferðarheimila og mjög ljót og erfið mál komið upp á yfirborðið. Þau hafa reynst okkur öllum erfið og okkur hefur þótt skelfilegt til þess að vita að illa hafi verið farið með börn á heimilum. Svo kemur líka í ljós að ekki hefur verið gengið nógu vel frá peningalegum samningum þannig að að ýmsu er að hyggja þegar þjónustusamningar eru gerðir við heimili.

Á ákveðnu tímabili var hugmyndafræðin sú að best væri að vista börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður á heimilum, ekki endilega á fagstofnunum heldur heimilum þar sem þau gætu verið eðlilegir þátttakendur í heimilislífi. Oft á tíðum voru þessi heimili úti á landi því ekki þótti verra að börnin væru í umgengni við náttúruna og dýr. Nú er ný hugmyndafræði tekin við sem er mjög eðlileg og góð þar sem gert er ráð fyrir að best sé að þjónusta barnið heima hjá sér. Auðvitað er best fyrir öll börn að alast upp heima hjá sér og við þessa stefnubreytingu er staðan orðin þannig að meðferðarheimilin eru í raun og veru bara fyrir þau börn sem er alls ekki hægt að hjálpa heima hjá sér. Það verða kannski erfiðustu úrræðin og þess vegna eru meðferðarheimilin orðnar öflugar fagstofnanir á sínu sviði. Á mörgum sviðum hefur hugmyndafræðin þróast, sem betur fer, við sitjum ekki föst í einhverju sem við höfum ákveðið fyrir mörgum árum síðan heldur eflum við starfsemina og gætum að henni.

Ég vil samt taka sérstaklega fram að við þurfum að vera á verði og halda varðstöðu okkar gagnvart þeim úrræðum sem eru í gangi á heimilunum. Við þurfum að gæta þess að börn um allt land fái hliðstæða og jafngóða meðferð, hún fari ekki eftir því hvar öflugir fagaðilar búa sem hafa sérþekkingu á ákveðnum meðferðum eða kerfum sem eru kannski tilbúin og keypt erlendis frá. Við verðum að gæta mjög vel að því að börn fái þau úrræði sem þau þarfnast og þau séu einstaklingsmiðuð og að foreldrarnir fái þann stuðning sem þeir þurfa. Ég legg mikla áherslu á að meðferðaraðferðir séu í stöðugri endurskoðun og metnar reglulega.

Þetta voru þau helstu atriði sem mig langaði til að fara yfir. Hægt væri að ræða hér fram og til baka mörg önnur atriði en hér liggur fyrir efnismikið nefndarálit sem ég held að sem flestir ættu að kynna sér vel því að mjög margt gott kemur fram í því. Ég vona að frumvarpið verði að lögum sem allra fyrst, ég tel að í því sé margt til bóta í barnaverndarmálum á Íslandi.