139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[16:05]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kom að þessari vinnu núna í blálokin og mér fannst mjög góð tilfinning að koma inn í hv. félags- og tryggingamálanefnd og finna að þar voru allir samstiga, vönduðu sig og vildu gera vel enda er málaflokkurinn þess eðlis að ekki eiga að vera um hann pólitísk átök. Þetta er rosalega viðkvæmur málaflokkur, ekki bara að þetta snerti börn heldur eru þetta lög til að vernda börn.

Mig langar að þakka hv. varaformanni nefndarinnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir framsögu hennar áðan og ég er stolt að hafa nafn mitt á nefndarálitinu. Ég held að við getum alltaf bætt og lagað af því að við sem vinnum með börn, ég er grunnskólakennari, erum alltaf að reka okkur á hvað við megum gera betur því að það eru allir af vilja gerðir. Mig langar aðeins að fara í tvær greinar í frumvarpinu, 9. og 10. gr.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr 9. gr. frumvarpsins.

„Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála.“

Það hefur gilt, eins og það kemur upp í starfi mínu að við höfum öll, ekki bara þeir sem vinna í skólum, ríka lagalega skyldu til þess að tilkynna þó að það sé bara grunur. Það er annarra að rannsaka, við erum ekki rannsakendur. Það hefur oft reynst erfitt að fá fólk, sérstaklega fólk sem ekki starfar kannski beint með börnum heldur nágranna og aðra, til að tilkynna. Nú er verið að opna á það þar sem starfsfólk barnaverndarnefndar getur sagt: Við förum með þetta, þetta er bara tilkynning, það þarf enginn að vita hvaðan hún kemur.

Við erum í erfiðleikum með að fá fólk til að tilkynna í dag, ég held að við þurfum að hafa þetta í huga. Ég skil vel að foreldrar eigi þennan rétt ef þeir telja á sér brotið en við þurfum að hafa þetta í huga ef við hugsum um barnið: Verður þetta til þess að einhver sem heldur að tilkynningin sé ekki þess virði að nágranninn frétti af henni tilkynni ekki? Í þau skipti sem barnaverndarnefnd hefur komið inn á minn vinnustað til að brýna okkur í því að tilkynna er alltaf verið að láta okkur vita að margt smátt geri eitt stórt. Lítið viðvik hér, lítið viðvik þar eru púsl í heildarmyndina, við megum ekki tapa litlu tilkynningunum. Ég held að við þurfum að hugsa um þetta. Ég er ekki að segja ég sé ósátt við ákvæðið en við þurfum að hafa þetta á bak við eyrað.

Í sambandi við 10. gr. frumvarpsins, sem ég er náttúrlega mjög ánægð með sem starfsmaður í grunnskóla, þá hefur sá sem tilkynnir rétt á að vita að verið sé að vinna í málinu. Það var nefnilega þannig að barnaverndaryfirvöld tóku við tilkynningum ef eitthvað alvarlegt kom upp. Ef ég tilkynnti barn til barnaverndarnefndar höfðu barnaverndaryfirvöld í rauninni ekki einu sinni þau úrræði að segja að það væri verið að vinna í málinu. Ég tilkynnti kannski sama barnið tvisvar, þrisvar en það mátti enginn segja mér að það væri verið að vinna í málinu.

Núna hafa barnaverndaryfirvöld leyfi til að segja: Málið er komið í farveg, það er verið að vinna í því eftir eðlilegum leiðum. Ég hef þá a.m.k. ekki á tilfinningunni að ég sé bara að gala inn í tóma tunnu. Það var alltaf sagt: Takk fyrir tilkynninguna. En núna fær maður þó betri tilfinningu fyrir þessu. Þú horfðir upp á barn sem leið illa, þú tilkynntir kannski hvað eftir annað en fékkst aldrei að vita hvort eitthvað væri að gerast í máli barnsins af því að þetta væri trúnaðarmál. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það þarf að vera. En það að fá þá vitneskju að einhver hafi leyfi til að segja: Já, við erum að vinna í máli barnsins, það er komið í farveg, finnst mér vera stórkostleg bót og ég er mjög ánægð með að það hafi komið inn í lagafrumvarpið. Ég veit að svo er um starfsfólk barnaverndarnefnda líka, ég sá það í umsögnum sem við fengum að starfsfólk er mjög ánægt að geta sagt: Við erum að vinna í þessu, þetta er komið í farveg, takk fyrir. Bara þetta litla veitir manni nesti í baráttunni. Markmið okkar með barnaverndarlögum er að verja börn og rétt þeirra af því að þau þurfa svo sannarlega á okkur að halda.

Ég er ofsalega ánægð og glöð að hafa fengið að taka þátt í vinnunni við þetta lagafrumvarp og hef lokið máli mínu.