139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort á að hlæja eða gráta yfir þessu frumvarpi. Hér er verið að leggja til að gæludýr fái vegabréf, þvílíkt og annað eins. En eins og finna má í greinargerðinni er verið að kratavæða gæludýrin líka.

Það er svo einkennilegt að síðan Ísland lagði inn umsóknina að ESB kemur hvert frumvarpið á fætur öðru inn í þingið sem byggt er á meðvirkni fyrst og fremst og í öðru lagi skyldu Evrópusambandsins til að lögleiða hér ýmsar reglugerðir og tilskipanir. Ég held að þessi slái allt út. Meðvirknin felst í því að hv. þm. Helgi Hjörvar kom í gegnum þingið á milli 2. og 3. umr. leynigesti þegar lagt var til að ekki þyrftu 100% íbúa í fjölbýlishúsi að vera samþykk því að gæludýr væru í húsinu á grunni þess að um blindrahunda væri að ræða. Í þessu frumvarpi er sömu meðvirkni beitt og talað um hjálpardýr fyrir sjónskerta og björgunarhunda. Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem starfar við björgun og þjálfar björgunarhunda og að sjálfsögðu líka fyrir því fólki sem þarf hunda sér við hlið vegna þess að það er sjónskert, en þessu tvennu má ekki blanda saman.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar: Hvað er að því að gæludýr fari í einangrun þar sem við erum á eyju í Norðurhöfum og megum ekki við því að fá hingað sjúkdóma? Í öðru lagi: Hvernig á að koma í veg fyrir að sjúkt dýr komi hingað á vegabréfi sem tilheyrir heilbrigðu dýri?