139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal ekki segja hvort gæludýr fari að berast hingað á fölsuðum vegabréfum en hitt er ljóst að oft á tíðum hlýtur að vera mismikið að marka skráningarnar í þessum vegabréfum og upplýsingarnar sem liggja að baki. Það sá ég þegar ég ræddi við þennan ágæta kúabónda sem ég vitnaði til áðan af því að þetta er sambærilegt kerfi, vegabréfakerfi dýra í Evrópusambandinu. Þegar ég ræddi við þennan ágæta mann og fór að skoða upplýsingarnar sem þarna bjuggu að baki var skráningum greinilega ábótavant í einhverjum atriðum og upp á vantaði að allt væri skráð jafnítarlega og nauðsynlegt er talið.

Við erum hér með íslenska búfjárstofna, íslensku hænuna, íslenska hestinn og íslenska sauðféð, og höfum barist í áranna rás við að útrýma ýmsum sjúkdómum og halda þeim frá búfjárstofnunum og einmitt þess vegna eigum við að fara mjög varlega í allar breytingar í þessa veruna.

Það er ekkert óeðlilegt að halda við því einangrunarferli sem gæludýr þurfa að ganga í gegnum í dag. Rétt eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í andsvari sínu hefur gríðarlega mikið verið dregið úr því á undanförnum árum og núna er það orðið mun einfaldara en var fyrir 10–15 árum. Þannig að ég held að þetta sé ekki jákvætt skref sem verið er að stíga og menn séu að leika sér að eldinum.