139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að átta sig á því af hverju menn vilja taka gæludýrin með sér þegar þeir fara í frí við Miðjarðarhafið og allra síst ef þeir hafa kýr fyrir gæludýr, það er enn flóknara að átta sig á því af hverju þeir fara með þær í ferðalag.

Nú þegar eru ýmsir farnir að hafa áhyggjur af þessu máli, eins og ég sagði áðan. Ég hef fyrir framan mig Bændablaðið. Þar hefur dr. Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og fyrrverandi prófessor í sýklafræði miklar áhyggjur af frumvarpinu og efni þess. Hún hlýtur að vera ein þeirra aðila sem mun væntanlega veita umsögn um málið.

Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan, og við hv. þingmaður erum þar kannski ósammála, að ég fagna því að hv. þm. Helgi Hjörvar ásamt tveimur flokksfélögum sínum skuli leggja málið fram því einmitt svona eigum við að skoða einstaka þætti frá Evrópusambandinu. Ef þingmenn vilja taka upp breytingar sem breyta hlutum hér í átt til Evrópusambandsins eiga þeir að koma með þær svona hreint og beint inn í þingið. Þá getur Alþingi Íslendinga tekið afstöðu til einstakra þátta og atriða. Ég kalla eftir því og hvet hv. þingmann og hv. þingflokk Samfylkingarinnar sérstaklega til að koma með fleiri mál með þessum hætti inn í þingið og leggja þau beint fram þannig að Alþingi Íslendinga geti — ja, fellt þau. Ég sé ekki fyrir mér að meiri hluti verði fyrir þessu máli.

Hv. þingmaður Helgi Hjörvar á reyndar hrós skilið því þetta er ekki eina dæmið um að hann hafi lagt fram mál fyrir þingið sem ljóst er að er einhvers konar hluti af Evrópusambandsumsókninni. Hann á hrós skilið fyrir að leggja þetta svo hreint fram fyrir Alþingi Íslendinga. Ég á von á því að fyrir þessu máli fari með sama hætti og fór með innflutning á (Forseti hringir.) hráu kjöti.