139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við komum enn og aftur að sama atriðinu. Það er ekki svo að Alþingi Íslendinga standi frammi fyrir því að ákveða hvort hundar, kettir, fuglar, verði eða verði ekki fluttir inn til Íslands eins og ætla mætti af því dæmi sem hv. þingmaður vísaði til frá Margréti Guðnadóttur, prófessor. Þessi dýr eru flutt hingað og eru flutt hingað á grundvelli tiltekinna vottorða. Þau koma hingað og því fylgir ákveðin hætta. Spurningin snýst einfaldlega um hvort virkt, reglubundið eftirlit dýralæknis, bólusetningar og prófun við móteitri geri ekki algerlega sama gagn í vörnum við smitsjúkdómum sem kunna að berast með gæludýrum eins og nokkurra vikna einangrun sem dýrin sæta í dag. Það er atriðið.

Hv. þingmaður talaði eins og hætta væri á því að með gæludýrum mundi gin- og klaufaveiki berast í búpening á Íslandi. Ég er ekki sá vísindamaður að ég ætli algerlega að hafna því að einhver minnsti möguleiki sé á því. En ég held að það sé að minnsta kosti alveg á hreinu að sú nokkurra vikna einangrun sem gæludýr sæta í dag komi ekki í veg fyrir slíkt smit ef svo ólíklega vildi til að það yrði vegna þess að það er staðreynd að hundar og kettir og önnur gæludýr eru flutt inn. Ef þau bera leynda sjúkdóma sem ekki er hægt að festa hendur á kemur það ekki upp við nokkurra vikna stopp í einangrunarstöð frekar en það mundi gera ef dýrin væru undir reglubundnu eftirliti og kæmu á grundvelli vegabréfs. Ég tel ekki að þetta séu efnisleg (Forseti hringir.) rök í málinu.